Mælingar með flugvél þýsku loftmælingarmiðstöðvarinnar benda til þess að gosmökkurinn frá Eyjafjallajökli sé svo þéttur að flugvellir á suðvesturlandi myndu lokast ef vindur stæði þangað.
Vélin var við mælingar í morgun og segir Haraldur Ólafsson, veðurfræðingur og prófessor við Háskóla Íslands, að ágæt gögn hafi fengist.
Vélinni var flogið undan vindi um 200 kílómetra frá eldstöðinni. Haraldur segir að í þeirri fjarlægð hafi mökkurinn verið býsna þéttur og ófær flugvélum. „Þar var þéttleikinn miklu meiri en hann var nokkru sinni yfir Evrópu,“ segir Haraldur. Það sýni að töluvert mikil gjóska komi enn upp úr eldstöðinni.
„Af því drögum við meðal annars þá ályktun að það er hugsanlegt að við núverandi ákefð í gosinu þurfi að loka aftur fyrir flug á suðvesturlandi, ef vindur verður suðaustanstæður,“ segir Haraldur.
Spurður um hugsanleg áhrif á flug í Evrópu segir Haraldur ólíklegt að það öskumagn sem nú komi frá Eyjafjallajökli dugi til að valda verulegri röskun í Evrópu.
Rannsóknarvélin gerir síðustu mælingarnar á morgun.