Innleiða þarf nýtt gildismat

Elín Björg Jónsdóttir
Elín Björg Jónsdóttir

„Ljóst er að ráðast verður í róttækt endurmat og víðtæka hugarfarsbreytingu í kjölfarið. Innleiða verður nýtt gildismat í stjórnsýslu, stjórnmál og atvinnulífið allt,“ segir Elín Björg Jónsdóttir, formaður BSRB, í BSRB tíðindum sem gefin voru út í dag. „Hindra verður með öllum ráðum að slíkir veikleikar í samfélagsgerðinni geti grafið um sig á ný.“

Elín Björg segir að án aðgerða sé útlit fyrir að fjöldi fjölskyldna sitji fastar í fátækragildru, þar sem tekjur duga ekki bæði fyrir greiðslubyrði lána og rekstri heimila. „Glannaskapur og ábyrgðarleysi fárra setur þannig óhjákvæmilega mark sitt á samneysluna. Margir þeirra sem bera mesta ábyrgð á hruninu lögðu lítið til samfélagsins. Þeir fluttu auð sinn úr landi, skiluðu ekki sköttum og skyldum, eða gáfu aðeins upp fjármagnstekjur. Það skyldi engan undra að almenningi svíði slík mismunun.“

Formaðurinn hvetur almenning frá því að leggja árar í bát og finna fremur skástu leiðina út úr þrengingunum. „Mikilvægast af öllu er að tryggja að sú góða almannaþjónusta sem veitt er á Íslandi haldi áfram. Vel mannað og þróttmikið velferðarkerfi er okku enn mikilvægara á erfiðum tímum.“

Að endingu minnist Elín Björg á 1. maí, dag launafólks um heim allan. „Þessi fyrsti maídagur ársins 2010 hefur táknræna þýðingu fyrir okkur sem búum á Íslandi. Þetta er 1. maí í endurreisn og uppbyggingu á nýju og betra samfélagi – þar sem hver og einn skiptir máli.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka