Ábúendur á Langholti í Meðallandi eru ósáttir með upplýsingaleysi til bæja á jaðarsvæðum eldgossins í Eyjafallajökli. Í samtali við fréttavef Bændablaðsins segir Jenný Lind Grétudóttir, bóndi í Langholti, að gleymst hafi að boða hana og sveitunga hennar á almannavarnafund. „Að endingu var haldinn málamyndafundur í kirkjunni af því að presturinn var sá eini sem mundi eftir okkur.“
Jenný Lind telur að skilning vanti á aðstæðum í Meðallandi og þó svo mikil vá sé á ákveðnu svæði megi ekki gleyma fólki annars staðar.
„Við vorum eiginlega ekki virt viðlits,“ segir Jenný og bætir við „Maður er með allt undir hérna og það var mikil óvissa þegar askan kom yfir og menn þekktu ekki svona fína ösku. Maður veit ekkert um þessa hluti fyrirfram og það verður mikill ótti hjá fólki því óvissan í aðstæðunum er gríðarlega mikil. Farsímarnir ná ekki inn í hús hjá okkur og hvað gerist ef Katla fer að gjósa og menn eru kannski í mjöltum?“
Björgunarsveit aðstoðaði við að koma dýrum í skjól þegar öskufall hófst í Meðallandi en síðan ekki söguna meir, að sögn Jennýar. „[Hér var] allt í myrkri og við erum eingöngu með upprunalega nettengingu svo það er erfitt fyrir okkur að fylgjast með á netinu. Það var haldinn Almannavarnafundur á Klaustri en það gleymdist að boða alla hér en síðan var haldinn annar fundur sem var eingöngu auglýstur í útvarpi sem við misstum af vegna þess að við heyrðum ekki auglýsinguna. [...] [Þ]að má ekki gleyma því að við búum undir Kötlu.“