Elín Björg Jónsdóttir, formaður BSRB, segir að BSRB styðji eignaupptöku þeirra sem sátu við kjötkatlana. Nauðsynlegt sé að gera ráðstafanir til þess að búa slíkri eignaupptöku, sem hluta af sáttargjörð í samfélaginu, viðeigandi lagagrundvöll. Þetta kom fram í ávarpi hennar á Austurvelli. Mikill fjöldi er á útifundi á Austurvelli .
Við borguðum þeir nutu
Hún sagði félaga í BSRB ekki láta lengur bjóða sér samfélag þar sem hinir ríku eru upphafnir og aðrir eru gleymdir.
„Hér var upphafinn stétt auðmanna, sem í þokkabót var undanskilin sköttum og skyldum. Sem lifði á fölsku fjármagni og greiddi ekkert til samneyslunnar Við hin borguðum... og þeir nutu.
Dæmin um spillingu og sérgæsku dynja daglega á okkur í fjölmiðlum. Ætlum við að sætta okkur við að þeir sem sátu við kjötkatlanna, haldi áfram að skammta sér tugföld laun á við almennt launafólk.
BSRB krefst þess að því linni Það verður engin sátt í íslensku samfélagi fyrr en uppgjörinu er lokið. Ef marka má fjölmiðla þá sitja þessir einstaklingar enn á miklum eignum.
Rætt er um að upptaka þessara eigna komi sterklega til greina, í hugum okkar BSRB félaga er það ekkert vafamál. Nauðsynlegt er gera ráðstafanir til þess að búa slíkri eignaupptöku, sem hluta af sáttargjörð í samfélaginu, viðeigandi lagagrundvöll. Fyrirheit stjórnvalda um að krefjast bóta frá þeim sem valdið hafa skaða verða að ganga eftir- það er krafa samfélagsins," sagði Elín Björg í ávarpi sínu á Austurvelli í dag.
Gengisvísitala góðverka hefur snarhækkað
Hún segir Íslendinga geta tekist á við vandann. „Horfum til sjálfboðaliðanna sem aðstoða nú bændur á Suðurlandi eftir öskufallið úr Eyjafjallajökli. Horfum á björgunarsveitirnar, lögregluna, vísindamenn og heilbrigðisstarfsfólk sem vinnur saman eins og einn maður. Þarna sjáum við í verki hið raunverulega gildismat íslensku þjóðarinnar. Eftir allt – eftir allt góðærisruglið, þá var það þarna að finna. Innst innra með okkur.
Þegar allt kemur til alls þá er það þetta sem raunverulega skiptir máli. Það að standa saman. Alls staðar í samfélaginu er fólk að bregðast við erfiðum tímum, með því að rétta náunganum hjálparhönd. Nágrannar hjálpa nágrönnum og fjölskyldur færast nær hvor annarri. Góðverkin skipta hundruðum og þúsundum á hverjum degi. Hugsið ykkur. Gengisvísitala góðverka hefur snarhækkað. Langt umfram gjaldmiðilinn. Þessu megum við ekki gleyma. Þó bölsýnin byrgi okkur stundum sýn. Við getum tekist á við vandann," sagði Elín Björg Jónsdóttir.