Það tók Sigurð Þórhallsson bónda á Önundarhorni meira en áratug að breyta órækt milli jökuls og sjávar í ræktað land. Það tók eldgosið í Eyjafjallajökli nokkrar mínútur að eyðileggja það. Þetta kemur fram í frétt AP fréttastofunnar frá Íslandi í dag.
Þar kemur fram að Sigurður, sem er 41 árs gamall, hafi fengið að kenna á fjármálakreppunni á Íslandi vegna lána sinna í bankanum sem hafa hafa hækkað mikið vegna kreppunnar. En kreppan bugaði hann ekki heldur spýja sem kom úr jöklinum. Hann segir að það hafi reynt verulega á að sjá ræktað land verð að engu. Hlaup kom í Svaðbælisá vegna eldgossins undir Eyjafjallajökli og flæddi jökulvatn yfir 50-60 hektara af túnum.
Sigurður vinnur að hreinsun á landi sínu og segir fréttamaður AP að það líti út fyrir að vera óendanlegt starf. Hins vegar sé Sigurður staðráðinn í að hreinsa upp og geri það með stóískri ró. Í fréttinni kemur fram að Íslendingar hafi þurft að ganga í gegnum margar hörmungar síðustu ár. Meðal annars hrun í kjölfar fyrri vaxtar þar sem þotuliðið ferðaðist um á einkaþotum og dvaldi í skíðaskálum í Ölpunum.
Breytt viðhorf gagnvart Íslendingum
Einn viðmælenda AP, Valný Þorsteinsdóttir, 26 ára, segir þetta hafa verið skrýtna tíma. En hún er nýkomin heim frá suðaustur Asíu. Þar hafi hún fundið fyrir breyttu viðhorfi í garð Íslendinga. Áður var yfirleitt sagt: Ísland þar er frábært, Björk, heitir hverir. Nú segir fólk hins vegar: Ísland er það ekki gjaldþrota?.
Þegar Íslendingar töldu að það versta væri að baki þá vaknaði Eyjafjallajökull og hóf að gjósa, fyrsta eldgosið þar í tæp tvö hundruð ár.
AP fjallar um tjón vegna flugbannsins í Evrópu og segir að á sama tíma hafi lítil röskun orðið á flugsamgöngum á Íslandi. En ferðaiðnaðurinn óttist það versta og allt sé óljóst varðandi ferðamennsku á Íslandi í sumar. Valný varð áþreifanlega vör við flugbannið í Bankok þar sem hún sat föst í nokkra daga vegna flugbannsins. Einhverjir hefðu grínast með þetta og meðal annars ásakað hana og Íslendinga um að bera ábyrgðina á flugbanninu. Hún hafi því gripið til þess ráðs að láta fólk helst ekki vita hvaðan hún væri.