Hraunið rennur fram

Séð til Eyjafjallajökuls úr vefmyndavél Mílu fyrr í kvöld.
Séð til Eyjafjallajökuls úr vefmyndavél Mílu fyrr í kvöld.

„Sjónavottar sem ég talaði við fyrir örfáum mínútum telja að hraunið sé farið að renna fram við jökulröndina,“ sagði Atli Ólafsson lögreglumaður á Hvolsvelli í samtali við fréttavef Morgunblaðsins, mbl.is. Rauður bjarmi sést við Gígjökul og er jafnvel talið að hraun sé farið að renna þar fram.

Verulegur kraftur er í gosinu og vísindamenn telja að miðað við stöðu gufumakkarins sem rís frá hrauninu þar sem það mætir ísnum hafi jaðar þess í dag verið í um 850 metra hæð á Gígjökli, um 3 km norðan gígsins. Gufumekkir frá jökuljaðri kl. 19:40 bentu til að hraun hafi jafnvel náð lengra sem rímar við lýsingar sjónarvotta nú á tólfta tímanum.

„Jökulfallið, sem rennur undan Gígjökli, er sjóðandi heitt og mikil gufa rýkur upp af því,“ segir Atli Ólafsson sem var í eftirlitsferð á þessum slóðum fyrr í kvöld.

Erfitt er að leggja mat á hraunrennslið í jöklunum, að mati jarðvísindamanna. Gróf ágiskun á flæði hrauns er 20 metrar á sekúndu og er matið byggt á lengd og breidd hraunstraums í Gígjökli annarsvegar og rennsli vatns hinsvegar.

Gjóskugosið er talið vera mun minna, 10 til 20 tonn á sekúndu. Virkni sprengigossins hefur heldur aukist undanfarna sólarhringa, en óljóst er hvort hraunflæðið hefur aukist. Ekkert bendir til gosloka.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert