Styttist í að hraun sjáist

Af myndum úr vefmyndavél Vodafone má ráða að sjóðandi heitt …
Af myndum úr vefmyndavél Vodafone má ráða að sjóðandi heitt vatnið renni undan jöklinum og endi í Markarfljóti. Ljósmynd/Vodafone.is/eldgos

Hraun gæti fljótlega farið að berast niður á láglendið framan við Gígjökul, að mati Haraldar Sigurðssonar eldfjallafræðings. Hann fór að gígnum á Eyjafjallajökli í gær með fréttamönnum frá þættinum 60 Minutes og greinir frá ferðinni í bloggi sínu. Hann telur að glóð geti jafnvel sést í kvöld.

Haraldur segir að það sé vel þess virði að fylgjast með vefmyndavél Vodafone sem beint er að svæðinu neðan við Gígjökul. „Í nótt kann að vera að glóð sjáist eða jafnvel glóandi heitt andesít hraun fari að gægjast fram úr gjánni,“ skrifaði Haraldur nú kl. 21.05. Hann lýsir einnig ferð sinni á jökulinn í gær:

„Það var stórkostleg og alveg ógleymanleg sýn sem blasti við mér,“ skrifar Haraldur um þá reynslu að horfa ofan í eldgíginn af Goðasteini, um 400 metra vestan við gígbarminn.

„Mér virtist að gufan, og þar með hraunið undir jöklinum, væri komin um það bil hálfa leið niður Gígjökulinn, og kæmi því fljótlega fram niður á láglendi, framúr Gígjökli,“ skrifar Haraldur.

„Ekkert lát var á sprengingum og öskuframleiðslu á meðan við dvöldumst á Goðasteini. Gosið virðist vera blandað gos, og er nú á millistigi milli hraun rennslis og sprengigoss.“ 

 Bloggsíða Haraldar Sigurðssonar eldfjallafræðings

Bætt inn klukkan 23:09

Gosið er blandgos, þar sem hraungosið er meira en sprengigosið. Gosmökkur hefur verið dekkri og meiri um sig undanfarna tvo til þrjá daga en var vikuna á undan, að því er segir í matsskýrslu Veðurstofunnar og Jarðvísindastofnunar sem unnin var klukkan 21 í kvöld.

Jafnframt hefur gjóskufall aukist í nágrenni eldfjallsins. Á sama tíma hefur hraun haldið áfram að renna til norðurs. Miðað við stöðu gufumakkarins sem rís frá hrauninu þar sem það mætir ísnum, var jaðar þess um miðjan dag í um 850 m hæð á Gígjökli, um 3 km norðan gígsins. Gufumekkir frá jökuljaðri kl. 19:40 benda til að hraun hafi jafnvel náð lengra.

Erfitt er að leggja mat á hraunrennslið. Gróf ágiskun á flæði hrauns er 20 m3/s eða 50 tonn/s, og er matið byggt á lengd og breidd hraunstraums (stærð sigkatla) í Gígjökli annarsvegar og rennsli vatns hinsvegar. Gjóskugosið er talið vera mun minna, 10-20 tonn/s. Virkni sprengigossins hefur heldur aukist undanfarna sólarhringa, en óljóst er hvort hraunflæðið hefur aukist. Ekkert bendir til gosloka.

Mælar Veðurstofunnar við Markarfljótsbrú sýna gusur sem komið hafa í …
Mælar Veðurstofunnar við Markarfljótsbrú sýna gusur sem komið hafa í Markarfljót í dag. Athyglisvert er að sjá hitasveiflur vatnsins. Mælingarnar eru óyfirfarnar. www.vedur.is
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert