Vefverslunin nammi.is, sem um árabil hefur selt íslenskar vörur og sent til útlanda, býður nú viðskiptavinum sínum að kaupa sýnishorn af eldgosaösku úr Eyjafjallajökli - öskunni sem lamaði farþegaflug á stórum hluta meginlands Evrópu dögum saman í síðasta mánuði. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu.
„Það er nokkur kaldhæðni í því fólgin að efnið sem milljónir manna bölvuðu hástöfum fyrir nokkrum dögum skuli nú vera eftirsótt verslunarvara. Má leiða líkum að því að spenningur sé fyrir því að eiga sýnishorn af orsakavaldi mestu raskana sögunnar á flugsamgöngum, og þar með eignast sýnishorn af nýskrifuðum kafla í sögunni," segir ennfremur í tilkynningu.
Allur ágóði af sölunni á Eyjafjallajökulsöskunni rennur til Landsbjargar, sem vinnur hörðum höndum við að tryggja öryggi þeirra sem búa á svæðinu undir Eyjafjallajökli ásamt því að aðstoða við hreinsun svæðisins.