Geðraskanir er helsta skýring örorku hjá Íslendingum en alls voru fimmtán þúsund Íslendingar metnir 75% öryrkjar eða meira á síðasta ári. Þar af eru níu þúsund konur metnar öryrkjar og sex þúsund karlar. Alls eru 37% þeirra sem eru með gilt örorkumat öryrkjar vegna geðraskana. Tíu árum fyrr, árið 1999, var hlutfall þeirra 35%.
Önnur algengasta orsök örorku eru stoðkerfissjúkdómar, að því er fram kemur á vef Trygingastofunar.
Hjá körlum eru geðraskanir helsta skýring örorku en stoðkerfissjúkdómar hjá konum.
Alls eru 1.600 einstaklingar yngri en þrjátíu ára metnir öryrkjar. Kynjahlutföllin eru nokkuð jöfn, 827 karlar og 773 konur. Geðraskanir eru stærsti flokkurinn, 66% hjá körlum og 54% hjá konum. Aðrir sjúkdómar eru í minna mæli hjá þessum aldurshópi og stoðkerfissjúkdómar ekki orðnir algengir eins og hjá eldri hópum.
Á aldrinum 30-49 ára er um helmingur karla skráður með örorku vegna geðraskana, en 4 af hverjum 10 kvenna. Í þessum aldurshópi eru 5.410 einstaklingar, rúmlega 60% konur og 40% karlar.
Í aldurshópnum 50 ára og eldri eru stoðkerfissjúkdómar helsta orsök örorku hjá konum. Samtals eru 8.130 einstaklingar í þessum aldurshópi árið 2009 og hlutfall kvenna rúmlega 60%.