Gott að vera móðir á Íslandi

Mæður í Noregi og Ástralíu eiga auðveldast með að sinna …
Mæður í Noregi og Ástralíu eiga auðveldast með að sinna hlutverki sínu. Því næst koma íslenskar mæður.

Ísland er í þriðja sæti yfir þau lönd þar sem auðveldast er að vera móðir, samkvæmt skýrslu Barnaheilla fyrir árið 2010. Mæður í Noregi og Ástralíu eiga auðveldast með að sinna hlutverki sínu, ef marka má hina svokölluðu „vísitölu mæðra“ Barnaheilla.

Samkvæmt vísitölunni er löndum raðað niður eftir því hvar er auðveldast og erfiðast að vera móðir. Ísland hækkar upp um eitt sæti frá fyrra ári en fast á hæla Íslands koma Svíþjóð, Danmörk, Nýja-Sjáland, Finnland, Holland, Belgía og Þýskaland. Afganistan er í neðsta sæti af 160 löndum, en þar af eru 43 vestræn ríki og 117 þróunarríki.

Í skýrslu Barnaheilla sem nefnist State of the World‘s Mothers Report kemur fram hversu gríðarlega mikilvægt það er að veita mæðrum aðgang að menntun, fjárhagslegum tækifærum og heilsuvernd. Þannig er líklegast að börn þeirra vaxi og dafni.

Á hverju ári fæða um 50 milljónir kvenna börn án nokkurrar faglegrar hjálpar. Í Eþíópíu eru heilbrigðisstarfsmenn viðstaddir 6% fæðinga en í Noregi eru þeir við nánast hverja fæðingu. Eitt barn af hverjum fimm nær ekki fimm ára aldri í Angóla og Sómalíu en á Íslandi deyr eitt barn af hverjum 333 fyrir fimm ára aldur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert