Fréttaskýring: Hjúkrunarfræðingar sjá fram á erfið ár

Hjúkrunarfræðingar við störf á Landspítala.
Hjúkrunarfræðingar við störf á Landspítala. mbl.is/Árni Sæberg

Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga stóð í vetur fyrir kjarakönnun meðal félagsmanna í fyrsta skipti en til stendur að gera slíka könnun árlega til að fylgjast með þróun kjara hjúkrunarfræðinga og standa vörð um réttindi þeirra.

Cecilia Björgvinsdóttir, sviðsstjóri kjara- og réttindasviðs félagsins, segir að niðurstaða könnunarinnar hafi verið nokkurn veginn í samræmi við það sem búist var við.

„Við vissum það að hjúkrunarfræðingar eru allir starfandi á töxtum þannig að svigrúmið til að gera miklar breytingar er ekki fyrir hendi. Þegar fólk starfar á strípuðum kjarasamningi án neinna viðbótargreiðslna er ekki um neitt að ræða til þess að taka.

 Heildarlaunin fara lækkandi

Það sem kom okkur reyndar á óvart í könnuninni er breytingin sem er að verða á stéttinni úr því að vera að mestu leyti vaktavinnufólk yfir í að verða jafnt vaktavinnu- og dagvinnufólk,“ segir Cecilia.

Þar vegi þyngst sú breyting sem eigi sér stað inni á stærsta vinnustað hjúkrunarfræðinga, Landspítalanum, að breyta því sem áður var sólarhringsþjónusta í dag- og göngudeildarþjónustu.

„Það þýðir náttúrlega að heildarlaun stéttarinnar eru að lækka, því það hefur alltaf verið þannig að um 20% fást í vaktaálaginu.“

Samkvæmt könnuninni eru meðalgrunnlaun hjúkrunarfræðinga 303.303 kr. á mánuði. Sé litið til launa eftir aldurshópum eru hjúkrunarfræðingar á aldrinum 24-34 ára með lægstu launin, eða 253.314 kr. að meðaltali, en 298.344 kr. á aldrinum 25-44 ára. Hjúkrunarfræðingar á aldrinum 45-54 ára hafa 315.318 kr. að meðaltali í grunnlaun en 330.641 kr. á aldrinum 55-68 ára.

Þegar spurt var hvort breyting hefði orðið á viðbótarkjörum var niðurstaðan sú að hjá 39,9% svarenda hafði viðbótarkjörum verið sagt upp. Oftast er þar um að ræða fasta yfirvinnu en einnig bílahlunnindi.

Könnunin staðfestir að margir hjúkrunarfræðingar hafa aukið við sig starfshlutfall á síðustu 12 mánuðum. Þar af breyttu 77,9% starfshlutfalli sínu að eigin ósk en 22,1% að ósk vinnuveitanda.

Cecilia segir þetta ánægjulegt í ljósi þess að áætla megi að mönnun á sjúkrastofnunum sé þá betri. Hins vegar hafa sumar stofnanir gripið til þess að minnka starfshlutfall hjúkrunarfræðinga vegna sparnaðar og er atvinnuleysi á meðal hjúkrunarfræðinga félaginu áhyggjuefni.

Árið 2010 hefur verið heilbrigðisstéttum erfitt og segir Cecilia að reikna megi með enn meiri erfiðleikum árið 2011 miðað við þann niðurskurð sem þá þarf að eiga sér stað í opinberum rekstri.

„Hagræðingarkrafan á næsta ári er enn meiri en í ár og stjórnvöld ætla ekki að ganga lengra í skattlagningu. Þá spyr maður sig hvar þá ber niður, það er nokkuð sem við getum ekki svarað og ég er ekki tilbúin til að geta í eyðurnar. En í raun erum við að búa stéttina undir að breytingar muni eiga sér stað.“

Sókn í menntun

Hjúkrunarfræðingar eru vel menntuð stétt ef marka má niðurstöður könnunarinnar, sem gefa til kynna að mikill fjöldi hjúkrunarfræðinga eða 40,5% hafi lokið formlegu viðbótarnámi.

Cecilia segir þessa þróun einkar ánægjulega. „Aukin fjölbreytni í möguleikum til viðbótarnáms hefur gert það að verkum að stéttin hefur í mjög miklum mæli sótt sér sérhæfingar.“ Þannig séu allir skurð- og svæfingarhjúkrunarfræðingar sérhæfðir eftir viðbótarnám og nær allir gjörgæsluhjúkrunarfræðingar. Þá sæki æ fleiri í meistaranám í stjórnun. „Hjúkrunarfræðingar hafa líka verið mjög duglegir að sækja sér viðbótarmenntun í viðskiptafræðideildir háskólanna og í verkfræðideildirnar í verkefnastjórnun. Nánast hvar sem þig ber niður, þar er hægt að sækja sér viðbótarmenntun.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert