Mikill og stöðugur órói

Mynd úr vefmyndavél Vodafone.
Mynd úr vefmyndavél Vodafone. Ljósmynd/Vodafone.is/eldgos

Órói undir Eyjafjallajökli hefur verið mikill og stöðugur í dag en hann jókst aðfararnótt 2. maí. Virkni virðist svipuð og í gær og ekkert bendir til þess að gosi sé að ljúka. Engin merki um breytingar undir Kötlu. Þetta kemur fram í minnisblaði Veðurstofu Íslands og Jarðvísindastofnun Háskólans.

Í minnisblaðinu segir einnig að vísindamenn við Gígjökul fundu fyrir vanlíðan vegna gass. Er að því tilefni minnt á að hætta stafar af gasi við Gígjökul.

Í dag mældist 11°C hiti á vatni við gömlu Markarfljóstbrú en tæplega 3°C um 2 km frá sporði Gígjökuls. Vatn streymir sitt hvorum megin við jökulinn og koma gusur á um 10 mínútna fresti.

Hitamælir við gömlu Markarfljóstbrú sýnir að vatnshiti byrjaði að hækka verulega í gærkvöld, 2. maí og náði hámarki í morgun um sexleytið, og mældist þá um 17°C. Annar toppur, um 15°C, mældist seinna í morgun, mili átta og níu. Vatnshiti hefur farið lækkandi síðan og er nú komin niður fyrir 4°C.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert