Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, segir að það sé meðal annars krónunni að þakka að Ísland varð ekki jafn illa út úr efnahagskreppunni og Grikkland. Þetta kemur fram í viðtali Bloomberg fréttastofunnar við Steingrím.
„Guð minn góður ég vildi ekki vera í þeirri stöðu sem þeir eru í," segir Steingrímur aðspurður um ástand mála í Grikklandi. Ekki sé alveg hægt að bera Ísland og Grikkland saman þrátt fyrir að bæði löndin hafi orðið illa út úr efnahagskreppunni. „Staðan sem Grikkland er í er talsvert frábrugðin þeirri stöðu sem Ísland var eða er í: Grikkir er með evruna og við getum deilt um hvort það er gott fyrir þá um þessar mundir," segir Steingrímur.
Bloomberg fjallar um hrun bankanna og að krónan hafi fallið um 80% gagnvart evrunni. Sett hafi verið gjaldeyrishöft á Íslandi og gripið hafi verið til margvíslegra aðgerða af hálfu Seðlabanka Íslands varðandi krónuna.
Steingrímur segir að muni verða þrautin þyngri fyrir Grikki að losna út úr þeim vanda sem þeir glími við.
Steingrímur segir að engin hætta sé á að Ísland geti ekki staðið við skuldbindingar sínar eftir að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn greiddi út annan hluta lánsins. Hann sé vongóður um að Ísland þurfi ekki að þiggja allt það fé sem þeim standi til boða frá AGS.
Viðtalið í heild