Skrifað var undir samning um eitt mesta markaðsátak sem ráðist hefur verið í til kynningar á Íslandi erlendis á Ferðamálaþingi 2010 í dag. Alls verður varið um 700 milljónum króna til átaksins. Ríkið leggur til 350 milljónir og Reykjavíkurborg, Icelandair, Iceland Express, Útflutningsráð og Samtök ferðaþjónustunnar leggja fram annað eins til átaksins.
Í ávarpi Katrínar Júlíusdóttur ferða- og iðnaðarráðherra á Ferðamálaþingi í dag kom m.a. fram að um væri að ræða stærsta markaðsátak Íslands þar sem allir landsmenn yrðu fengnir til að leggja sitt lóð á vogarskálarnar. Fyrirtæki í ferðaþjónustu yrðu drifkrafturinn og framleiddu kynningarefni en öllum yrði boðið að nota það efni. Þannig vildu menn gera alla Íslendinga að sendiherrum og einnig yrði kappkostað að virkja í verki alla Íslandsvini til að sýna fram á að það væri aldrei meira spennandi en nú að sækja Ísland heim, að því er segir í fréttatilkynningu.
„Nú, þegar landið er að springa úr orku, er rétti tíminn til að koma,“ sagði ferðamálaráðherra.
Dagskrá Ferðamálaþingsins, sem haldið var á Hilton Reykjavík Nordica hótelinu, er að öðru leyti helguð þeim atburðum sem hæst hafa borið síðustu daga, það er eldgosinu í Eyjafjallajökli og áhrifum þess á ferðaþjónustuna.