Fjármálaráðherra kveðst ekki hafa áhyggjur af því komist ný ríkisstjórn til valda í Bretlandi, spurður út í Icesave-viðræðurnar. Öðru máli gegni um Holland. Þingkosningar verða í Bretlandi á fimmtudag og í júní í Hollandi.
„Við vitum að það eru sjónarmið í hollenskum stjórnmálaflokkum okkur ákaflega mótdræg. Og miklu harðari en þau, satt best að segja, en við vorum þó að eiga við í fráfarandi ríkisstjórn. Við misstum þar út í raun þann bandamann sem var kannski einna velviljaðastur okkur þrátt fyrir allt, og lagði mikið á sig til að reyna leysa málið þar sem var Wouter Bos [fyrrverandi fjármálaráðherra Hollands] og flokkur hans. Þeir sem hafa haldið uppi svona hörðustum málflutningi á hollenska þinginu eru úr flokkum sem gætu komist til aukinna áhrifa í stjórnmálum þar eftir kosningar,“ segir Steingrímur J. Sigfússon.