Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra segist ekki vita hver hafi gefið Má Guðmundssyni seðlabankastjóra loforð um óbreytt kjör. Hann segir mikilvægt að allir taki þátt í því að lækka hæstu launin í samfélaginu.
„Hið opinbera hefur gert það. Við höfum lækkað laun ráðherra, alþingismanna, dómara. Allra forstjóra í opinberum fyrirtækjum. Við höfum fært fleiri slíka undir kjararáð. Þetta er tímabundin skipan mála, sem tók til ársins í fyrra og gildir út þetta ár. Ég vonast til þess að allir leggi þar sitt af mörkum, og þar með talinn seðlabankastjóri. Enda heyrist mér hann hafa skilning á því að eitthvað sem hægt væri að útleggja sem launahækkun komi ekki til greina,“ segir Steingrímur.
Hann bendir á að lögum samkvæmt er sérstaklega hægt að fjalla um kjaraþátt seðlabankastjóra. Það sé einstakt ákvæði sem gildi ekki um úrskurði kjararáðs gagnvart öðrum embættismönnum.
„Ég treysti því að bankaráðið og seðlabankastjóri komist að ásættanlegri niðurstöðu í þessum efnum. Það hafa engar ákvarðanir verið teknar. Ég held að það eigi bara bíða eftir því hvernig vinnst úr málum,“ segir hann.
Hann bendir á að hann hafi ekki komið að ráðningu seðlabankastjóra. „En lögin um kjararáð heyra vissulega undir mig og mér er mikið í mun að þau haldi. Ég mun vera í samráði við stjórnendur kjararáðs út af því máli,“ segir Steingrímur.