„Það hefði hugsanlega getað skapað meiri vandræði ef við hefðum veitt kjararáði þessa heimild þar sem það hefði stangast á við önnur lög,“ segir Lilja Mósesdóttir, varaformaður efnahags- og skattanefndar. Vísar hún þar til þess að í lagafrumvarpi því sem fjármálaráðherra lagði fram um mitt síðasta sumar var ákvæði um kjararáð og Seðlabankann þess efnis að kjararáð skyldi „ákveða laun og önnur starfskjör bankastjóra, þ.m.t. rétt til biðlauna og eftirlauna og önnur atriði sem varða fjárhagslega hagsmuni hans.“
Í nefndaráliti efnahags- og skattanefndar á sínum tíma kom fram að við umfjöllun nefndarinnar hafi kjararáð gert athugasemd við þessa grein frumvarpsins og tekið fram að ráðið ákvarðaði ekki biðlaun og eftirlaun fyrir embættismenn.
„Nefndin leggur því til að ákvæði b-liðar 28. gr. laga nr. 36/2001, um Seðlabanka Íslands, verði breytt þannig að starfskjör seðlabankastjóra fari almennt eftir lögum um kjararáð með þeim fyrirvara að ákvörðun um biðlaun, eftirlaun og önnur atriði sem varða fjárhagslega hagsmuni hans verði í höndum bankaráðs bankans. Bankaráðið mun áfram ákveða laun og önnur starfskjör aðstoðarseðlabankastjóra og fulltrúa í peningastefnunefnd,“ segir m.a. í nefndaráliti efnahags- og skattanefndar, en þetta orðalag er í samræmi við orðalag laganna sem samþykkt voru í ágúst sl.
Í ljósi þeirrar umræðu sem nú er upp komin í tengslum við laun seðlabankastjóra segir Lilja fulla ástæðu til þess að endurskoða lögin í ljósi þess að þau hafi ekki haft þau áhrif sem til var ætlast með tilliti til þeirrar stöðu sem upp sé komin. Segist hún gera ráð fyrir að málið verði tekið upp á næsta fundi efnahags- og skattanefndar sem fram fer þriðjudaginn 11. maí.
Eins og fram kemur í Morgunblaðinu í dag var búið að kynna þann vilja stjórnvalda að lækka hæstu laun hjá ríkinu þegar núverandi seðlabankastjóri var ráðinn. „Við ræddum það á sínum tíma að það væri dýrmæt reynsla að vera seðlabankastjóri og það myndu fleiri vilja vera í þessu embætti tímabundið, jafnvel á lágum launum samanborið við það sem þekkist erlendis, til þess að öðlast reynslu sem nýst gæti í framtíðarstörfum á alþjóðlegum fjármálamarkaði. Ég hafði því ekki áhyggjur af því að við myndum ekki fá góðan seðlabankastjóra,“ segir Lilja.
Bendir hún á að allir á Íslandi séu á lágum launum í dag samanborið við laun annars staðar. „Við erum öll á skítalaunum ef við miðum laun okkar við laun erlendis. Kostnaðurinn við bankafallið er að við erum öll á launum sem ekki eru samkeppnisfær við laun í löndunum í kringum okkur. Það á ekki bara við um seðlabankastjóra.“
Spurð hvort ekki sé sérkennilegt að bankaráðsmenn fari ekki að vilja stjórnvalda þegar komi að því að lækka hæstu laun starfsmanna ríkisins segir Lilja stöðuna flókna vegna lagaflækju og samningsréttar. Tekur hún fram að sér finnist mikilvægt að samræmi sé í launum t.d. seðlabankastjóra og forstjóra Fjármálaeftirlitsins. „Ég er þeirrar skoðunar að laun seðlabankastjóra eigi að lækka í samræmi við niðurfærslu launa sambærilegra forstjóra og forstöðumanna hjá ríkinu,“ segir Lilja.
Í Kastljósinu í gær lét seðlabankastjóri hafa eftir sér að yrðu laun hans lækkuð myndi það hafa afleiðingar á laun annarra starfsmanna bankans til lækkunar. Spurð um þetta bendir Lilja á að ekki megi gleyma að undir lok útrásarinnar hafi laun ítrekað verið hækkuð hjá starfsmönnum Seðlabankans með þeim rökum að annars myndu starfsmennirnir ráða sig í betur launuð störf annars staðar.
„Það þarf náttúrlega að leiðrétta þessa hækkun miðað við þær aðstæður sem eru núna. Ef þú færð hækkun af því að markaðslaun eru almennt að hækka í þínum geira þá hlýtur þú líka að þurfa að taka á þig lækkun nú þegar markaðslaunin hafa almennt lækkað í þessum geira. Það er eðli markaðslauna. Þau fara líka niður í samræmi við markaðsaðstæður, en það virðist hins vegar oft gleymast í umræðunni.“