Upplýst um lækna sem fá áminningu í starfi

Stjórnvöld í Danmörku, Noregi og Svíþjóð ætla að miðla á milli sín upplýsingum um lækna sem hafa fengið áminningu. En hvað með Ísland og Finnland? spyr norskur þingmaður, að því er fram kemur í frétt frá Norðurlandaráði.

Munu ríkisstjórnir Finnlands og Íslands eiga aðild að norrænu samstarfi sem miðar að því að auka öryggi sjúklinga? spyr norski þingmaðurinn Sonja Mands í bréfi sem hún hefur sent ríkisstjórnum Finnlands og Íslands.

Ríkisstjórnir Danmerkur, Svíþjóðar og Noregs ákváðu að skiptast á upplýsingum um áminningar til lækna eftir að upp komu mál þar sem læknar sem fengið hafa tiltal héldu áfram að starfa í öðru norrænu ríki. Finnum og Íslendingum hefir einnig verið boðið að taka þátt í samstarfinu en hafa ekki ennþá gefið svar.

Ekki er gert ráð fyrir sameiginlegri norrænni skrá um lækna með áminningu, fremur að stjórnvöld í ríkjunum upplýsi hvert annað þannig að hægt sé að nálgast slíkar upplýsingar ef þörf krefur, samkvæmt frétt Norðurlandaráðs.

„Erlendir lækna sem vilja starfa í norrænu ríkjunum þurfa sérstakt leyfi. Samkvæmt samningum eiga norrænu ríkin samstarf um upplýsingamiðlun um lækna sem misst hafa réttindi að einhverju eða öllu leyti. Upplýsingum um lækna sem fá tiltal frá eftirlitsaðilum, t.d. áminningar, hefur ekki verið miðlað á skipulegan hátt," segir í frétt Norðurlandaráðs.

Sonja Mands er fulltrúi í velferðarnefnd og flokkahópi jafnaðarmanna í Norðurlandaráði.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert