Kaupsýslumaðurinn Ólafur Ólafsson segist ekki hafa verið boðaður til skýrslutöku hjá sérstökum saksóknara síðan fyrir um ári þegar hann var spurður um mál tengd kaupum sjeiks Mohameds Bin Khalifa Al-Thani á um 5% hlut í Kaupþingi. Hann segist ekki þekkja þau mál sem nú eru til rannsóknar.
Ólafur er búsettur í Sviss og var þar í dag þegar fréttavefur Morgunblaðsins, mbl.is, náði af honum tali. Þegar Ólafur var yfirheyrður hjá sérstökum saksóknara fékk hann réttarstöðu grunaðs manns sem hann er enn með.
Eins og fram hefur komið leikur grunur á að kaup Q Iceland Finance, eignarhaldsfélags Al-Thani, á um 5% hlut í Kaupþingi í september 2008 hafi verið sýndarviðskipti.
Ólafur vildi lítið tjá sig um viðskipti Al-Thanis eða um hvað sérstakur saksóknari hefði spurt þegar hann var yfirheyrður vegna þeirra.
Hann tók hins vegar skýrt fram að um eðlileg viðskipti hefði verið að ræða og það hefði Al-Thani raunar staðfest sjálfur, eftir því sem hann best vissi.