Engin aðkoma alþjóðadeildar

Ríkislögreglustjóri
Ríkislögreglustjóri Árni Sæberg

Alþjóðadeild ríkislögreglustjóra hefur ekki aðkomu að aðgerðum sérstaks saksóknara, og deildin hefur ekki farið fram á handtökur á íslenskum ríkisborgurum erlendis. Þetta segir Smári Sigurðsson hjá alþjóðadeildinni.

Í kjölfar handtöku Hreiðars Más Sigurðssonar, fyrrverandi forstjóra Kaupþings, hafa vaknað upp spurningar um frekari handtökur. Ólafur Þ. Hauksson, sérstakur saksóknari, vildi ekki gefa upplýsingar um hvort fleiri handtökur væru fyrirhugaðar fyrr í dag en útilokaði það ekki.

Hafi verið gefnar út handtökuskipanir erlendis á hendur stjórnendum Kaupþings var það ekki í gegnum alþjóðadeild ríkislögreglustjóra, að sögn Smára Sigurðssonar. Deildin hafi ekki aðkomu að aðgerðunum.

Hreiðar Már var boðaður til skýrslutöku hjá sérstökum saksóknara í morgun og handtekinn í kjölfar hennar. Grunur leikur á um skjalabrot skv. 17. kafla almennra hegningarlaga, auðgunarbrot skv. 26. kafla almennra hegningarlaga,  brot gegn lögum um verðbréfaviðskipti þ.m.t. markaðsmisnotkun og loks brot gegn hlutafélagalögum.

Verði hann sakfelldur gæti Hreiðar Már átt yfir höfði sér allt að átta ára fangelsi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert