Enn góður kraftur í gosinu

mbl.is/Kristinn

Gosmökkurinn frá Eyjafjallajökli er enn hár en hann náði 30.000 feta hæð (um 9 km) á milli klukkan hálf sex og átta í morgun. Veðurstofa Íslands segir að enn sé góður kraftur í gosinu.

Þá hafa jarðskjálftar mælst undir jöklinum í dag og virðast sumir þeirra vera djúpir. Ástandið er þó svipað og verið hefur undanfarna daga og eru skjálftarnir að mælast á svipuðum stað og undanfarið.

Mjög lítið vatn er nú á Markarfljótsaurunum. Að sögn Veðurstofu Íslands hefur mjög dregið úr vatnsrennsli frá jöklinum en áður. Ástæðan sé hugsanlega sú að hraunrennsli sé minna. Hvítu gufubólstrarnir virðist t.a.m. vera minni að sögn jarðeðlisfræðings. Bræðslan sé því minni. Þetta hefur þó ekki fengist staðfest, enda mjög þungbúið við Eyjafjallajökul.

Leiðnitoppur, sem varð í jökulsám á Sólheimasandi í gær, virðist hafa verið útskolun á efnum úr ösku, en ekki frá jarðhitavatni undan jöklinum.  

Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands vinnur nú að því að greina ný öskusýni. Niðurstöður munu liggja fyrir síðar í dag, en vísbendingar eru um að askan sé að breytast.

Almannavarnir koma saman til fundar klukkan 15 í dag til að fara nánar yfir stöðu mála.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert