Gæsluvarðhald staðfest

Lögreglustöðin á Suðurnesjum.
Lögreglustöðin á Suðurnesjum.

Hæstiréttur hefur staðfest úrskurð Héraðsdóms Reykjaness um að karlmaður sæti gæsluvarðhaldi til 16. maí. Maðurinn er grunaður um aðild að sérstaklega hættulegri líkamsárás, frelsissviptingu, þjófnuðum og fjárkúgun.

Um er að ræða mann, sem var handtekinn í apríl ásamt fimm öðrum. Málið hófst 9. apríl þegar lögregla var kvödd á vettvang vegna þjófnaðar á verkfærakistu sem eigandinn hafði lagt frá sér á bílastæði við leikskóla í Reykjanesbæ. Til þjófanna sást og bíls, sem þeir voru í og tókst lögreglu að finna bílinn skömmu síðar ásamt þýfinu.

Við rannsókn þjófnaðarmálsins komu fram upplýsingar um að einn þátttakenda hefði verið numinn á brott með valdi frá heimili sínu nóttina áður, haldið nauðugum í heimahúsi um nóttina og sætt þar hótunum, ýmsum líkamsmeiðingum og pyntingum af hálfu hinna mannanna fimm. Manninum var haldið áfram nauðugum fram eftir degi og var meðal annars þvingaður til að stela fyrrgreindri verkfærakistu. Ástæðan er talin hafa verið innheimta á fíkniefnaskuld.

Í úrskurði héraðsdóms um gæsluvarðhald kemur fram, að maðurinn sé grunaður um fjölda innbrota en undanfarið hafi mikil innbrotahrina gengið yfir á Suðurnesjum. Hefur lögreglan lagt hald á fjölda muna, sem talinn er þýfi.

Þá kemur fram, að maðurinn hafi sagt í yfirheyrslum við lögreglu, að hann ætli að drepa manninn, sem neyddur var til að stela hjólbörunum.  Sakborningurinn hefur tvisvar sinnum verið dæmdur fyrir mjög alvarleg ofbeldisbrot og á nú yfir höfði sér allt að 16 ára fangelsisdóm. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert