Hreiðar Már handtekinn

Hreiður Már Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings, var handtekinn eftir skýrslutöku …
Hreiður Már Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings, var handtekinn eftir skýrslutöku hjá sérstökum saksóknara. mbl.is/Kristinn

Sérstakur saksóknari fór fram á það í dag að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði Hreiðar Má Sigurðsson, fyrrverandi forstjóra Kaupþings, í tveggja vikna gæsluvarðhald. Dómari ákvað að taka sér lögmæltan frest til uppkvaðningar og á meðan er Hreiðar vistaður í fangaklefa lögreglu höfuðborgarsvæðisins.

„Í tengslum við rannsókn embættis sérstaks saksóknara á málum er tengjast Kaupþingi var einn sakborningur handtekinn fyrr í dag í lok skýrslutöku sem hófst í morgun. Farið var fram á gæsluvarðhald fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í kjölfarið til að tryggja rannsóknarhagsmuni,“ segir í tilkynningu frá Ólafi Þ. Haukssyni, sérstökum saksóknara.

Til rannsóknar eru m.a. grunur um skjalabrot skv. 17. kafla almennra hegningarlaga, auðgunarbrot skv. 26. kafla almennra hegningarlaga,  brot gegn lögum um verðbréfaviðskipti þ.m.t. markaðsmisnotkun og loks brot gegn hlutafélagalögum. Til grundvallar rannsókninni eru kærur frá Fjármálaeftirlitinu og önnur gögn.

Samkvæmt heimildum fréttavefs Morgunblaðsins, mbl.is, er Hreiðari Má haldið í fangaklefa lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu við Hverfisgötu.

Ekki náðist í Ólaf Þ. Hauksson, sérstakan saksóknara.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka