Hreiðar Már í skýrslutöku

Hreiðar Már Sigurðsson eftir skýrslutöku hjá sérstökum saksóknara í kvöld. …
Hreiðar Már Sigurðsson eftir skýrslutöku hjá sérstökum saksóknara í kvöld. Hreiðar er umkringdur lögreglumönnum og fjölmiðlafólki. Morgunblaðið/Árni Sæberg

Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings, var aftur tekinn til skýrslutöku hjá sérstökum saksóknara í kvöld. Henni lauk á níunda tímanum og var hann í kjölfarið fluttur aftur í fangaklefa lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu við Hverfisgötu.

Hreiðar Már var boðaður til skýrslutöku hjá sérstökum saksóknara í morgun. Hann mætti þangað sjálfviljugur en þegar henni lauk um hádegisbil var hann handtekinn og færður fyrir dómara. Farið var fram á tveggja vikna gæsluvarðhald yfir Hreiðari Má. Úrskurður verður kveðinn upp á morgun.

Undir kvöld var Hreiðar Már svo aftur færður til skýrslutöku. Hvort hann hafi sjálfur beðið um það að gefa skýrslu fæst þó ekki staðfest.

Magnús Guðmundsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings í Lúxemborg, var einnig handtekinn í dag. Hann er núverandi forstjóri Banque Havilland í Lúxemborg. Enn hefur ekki verið farið fram á gæsluvarðhald yfir Magnúsi en hugsanlegt að það gerist í kvöld eða fyrramálið.

Líklegt þykir að frekari handtökur séu fyrirhugaðar. Sigurður Einarsson, fyrrverandi stjórnarformaður Kaupþings, er þar nefndur fyrst og sérstaklega til sögunnar. Sigurður er búsettur í London.

Húsleitir í febrúar

Starfsmenn embættis sérstaks saksóknara fóru utan til Lúxemborgar í febrúar síðastliðnum. Meðal annars var gerð húsleit í Banque Havilland. Aðgerðin var meðal þeirra umfangsmestu hjá embættinu.

Rannsóknin tengdist viðskiptum með hlutabréf í Kaupþingi og skuldatryggingum, en Banque Havilland tók við starfsemi Kaupþings í Lúxemborg á síðasta ári. Leitað var á tveimur stöðum hjá Banque Havilland og í heimahúsi. Ellefu voru yfirheyrðir vegna málsins.

Banque Havilland var keyptur af bresku Rowland-fjölskyldunni á síðasta ári. Magnús Guðmundsson fékk hins vegar að stýra bankanum áfram.

Erlendir fjölmiðlar fjalla um handtökurnar á vefjum sínum í dag enda Kaupþing áberandi í bankaheiminum.

Guardian

BBC

Bloomberg

Times

Wall Street Journal

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert