Sigurður Kári Kristjánsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, nýtti liðinn um fundarstjórn forseta Alþingis til þess að kvarta undan því að Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, hafi ekki viljað svara málefnalega þeim spurningum sem beint væri til hennar í óundirbúnum fyrirspurnartíma.
Undir þetta tók Birkir Jón Jónsson, þingmaður Framsóknarflokks. Forseti Alþingis hvatti ræðumenn til þess að nýta dagskrárliðinn til þess að ræða fundarstjórn forseta. Birkir Jón vísaði því þá til forseta að hann beitti sér fyrir því að forsætisráðherra svaraði spurningum fyrirspyrjenda.
Róbert Marshall, þingmaður Samfylkingar, tók undir með Sigurði Kára þess efnis að liðurinn óundirbúinn fyrirspurnartíma væri orðinn býsna haldlítil umræða þegar þrír þingmenn komi upp í ræðustól til þess að spyrja sömu spurningarinnar og hlustuðu síðan ekki á svar forsætisráðherra. Sagði hann ljóst að þingmennirnir hafi allir ætlað að verða frægir á sömu fyrirspurninni. Tók hann fram að hann frábæði sér þær málflutningsæfingar sem fulltrúar stjórnarandstöðunnar beittu fyrir sér.
Ragnheiður E. Árnadóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokks, brást harkalega við ummælum Róberts og vísaði því á bug að málið snérist um frægð. Ítrekaði hún að málið snérist um það að þingmönnum gæfist sjaldan tækifæri til þess að beina mikilvægum spurningum til ráðherra sem bæri samkvæmt lögum að svara sannleikanum samkvæmt á þinginu. Minnti hún á að forsætisráðherra hafi ekki viljað svara fyrir málið í fjölmiðlum og því verið þingmenn að nýta tímann á þinginu til þess að fá fram skýr svör.
Þórunn Sveinbjarnardóttir, þingmaður Samfylkingar, minnti á að forsætisráðherra hafi í þrígang svarað þeim spurningum sem til hennar hafi verið beint. Benti hún á að þingmenn hefðu ýmis önnur tækifæri til þess að beina spurningum til ráðherra, t.d. í þingnefndum. Velti hún upp þeirri spurningu hvort ástæða væri til þess að eyða dýrmætum fundartíma Alþingis til þess að þetta mál þegar mörg önnur brýn málefni biðu.
Birkir Jón Jónsson sagði ljóst að þingmönnum væri skylt að hafa eftirlit með framkvæmdavaldinu. Óskaði hann síðan formlega eftir fundi í efnahags- og skattanefnd þar sem launamál seðlabankastjóra verði rædd og forsætisráðherra sitji fyrir svörum.