Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokks, gerði skerðingu lífeyrisréttinda og stöðu opinbera lífeyrissjóðanna að umfjöllunarefni á Alþingi fyrr í dag. Gagnrýndi hann það að réttindi sjóðsfélaga í opinbera kerfinu séu tryggð óháð fjármögnun öfugt við það sem viðgengst á almennum vinnumarkaði. Sagði hann þetta eiga sér sögulegar skýringar og velti upp þeirri spurningu hvort ekki þyrfti að leiðrétta það ójafnrétti sem ríkir í réttindaávinnslu lífeyrissjóðanna.
Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, sagði það mikla gæfu í maí 1969 þegar tekin var upp sú stefna að hafa söfnunarsjóði í stað gegnumstreymissjóði. Rakti hann forsögu lífeyrissjóðakerfisins eins og við þekkjum það í dag.
„Ef við lítum á stöðu lífeyrissjóðakerfisins í heild er það vissulega svo að þar hafa orðið áföll á síðustu misserum,“ sagði Steingrímur. Minnti hann á Íslendingar ásamt Hollendingum og Svisslendingum vera með lífeyrissjóði sem eigi hreinar eignir sem nemi um 120-130% af vergri landsframleiðslu. Til samanburðar ættu Grikkir 0%.
Steingrímur benti á að þrátt fyrir þær skerðingar sem orðið hafi á síðustu vikum þá væri greiðslur sambærilegar við það sem var árið 2006 með vísitölutryggingu. Þannig mætti segja að lífeyriskerfin tvo væri nú orðin sambærilega aftur. Sagði hann sorglegt að lítið hafi verið greitt inn á skuldbindingar opinberra lífeyrissjóða á þeim árum þegar afgangur var sem mestur hjá ríkissjóði.
Vigdís Hauksdóttir, þingmaður Framsóknarflokks, spurði hvort það hefði ekki verið skoðað hvort ekki ætti að leggja niður opinbera lífeyrissjóðina, nota fjármunina til þess að rétta af hag ríkisins og taka síðan upp gegnumstreymiskerfi fyrir opinbera starfsmenn.
Pétur H. Blöndal, þingmaður Sjálfstæðisflokks, sagði sparnaður á Íslandi sorglega lítill nema þegar kæmi að lífeyrisskuldbindingum sem væri reyndar skyldusparnaður. Sagði hann ljóst að bæði þingmenn og lífeyrissjóðirnir þyrftu að læra af mistökum sínum. Að hans mati væri eðlilegra að sjóðsfélagar almennu lífeyrissjóðanna hafi rétt til að kjósa forystu sjóðanna, enda hagur þeirra að þeir séu vel ávaxtaðir og reknir.
Margrét Pétursdóttir, þingmaður Vinstri grænna, sagði lífeyriseign mikilvægasti sparnaður fólks og sorglegt að sjá hvernig farið hafi verið með þá á síðustu misserum. Hvatti hún til allsherjar rannsóknar á starfsemi lífeyrissjóða landsins.