Ökuleyfisaldur hækkar úr 17 í 18 ár og gildistími almennra ökuskírteina verður 15 ár miðað við þau ökuskírteini sem gefin eru út frá og með 1. janúar 2013. Þetta er meðal þeirra breytinga sem gert er ráð fyrir í stjórnarfrumvarpi til umferðarlaga sem Kristján L. Möller, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, mælti fyrir á Alþingi í dag.
Af öðrum breytingum frumvarpsins má nefna að gildissvið umferðarlaga er gert skýrara og byggt á þeirri grundvallarstefnumörkun að meginákvæði laganna eigi í aðalatriðum við um umferð á vegum sem ætlaðir eru vélknúnum ökutækjum sem eru skráningarskyld.
Ákvæði gildandi laga um neyðarakstur eru gerð mun ítarlegri og fellur nú slíkur akstur undir hugtakið forgangsakstur. Sett eru fram viðmið um hversu langt bil skuli vera milli ökutækja á vegi miðað við akstur á 60 km hraða á klst. Kveðið er á um nýmæli um akstur í hringtorgum.
Ákvæði um að þegar ökutæki mætast skuli sá ökumaður víkja sem betur fær því við komið er breytt þannig að sá sem kemur fyrr að hindrun skuli víkja fyrir þeim sem seinna kemur að. Samspil og uppbygging ákvæða laganna um framúrakstur er einfölduð frá gildandi lögum. Þannig er lagt til bann við því að aka fram úr öðru ökutæki rétt áður en komið er að gatnamótum og enn fremur er lagt bann við að aka fram úr þar sem er óbrotin miðlína.þ
Í frumvarpinu er kveðið á um að hámarksökuhraði í þéttbýli skuli vera 50 km á klst. nema annað sé gefið til kynna með umferðarmerkjum. Reglur um hámarkshraða utan þéttbýlis eru rýmkaðar og ökuhraði á akbraut með bundnu slitlagi og fleiri en einni akrein er samræmdur í 90 km á klst. Hámarkshraði skal ákveðinn með hliðsjón af umhverfissjónarmiðum, skilvirkni samgangna og umferðaröryggi vegfarenda.
Heimilt verður að láta eiganda eða umráðamann ökutækis sæta refsiábyrgð á hlutlægum grundvelli, þ.e. án þess að sýnt sé fram á sök hlutaðeigandi. Á það við þegar hraðakstursbrot er numið í löggæslumyndavél.
Ítrekaður ölvunarakstur, þegar vínandamagn í blóði hefur í bæði skiptin verið yfir 2‰ eða vínandamagn í lítra lofts 1,00 milligramm eða meira, skal varða fangelsi eigi skemur en í 30 daga. Jafnframt er kveðið á um að hámarkssekt vegna umferðarlagabrota er hækkuð úr 300.000 krónum í núgildandi lögum í allt að 500.000 kr.
Gjald fyrir einkamerki verða hækkað úr 25.000 kr. samkvæmt gildandi lögum í 50.000 kr.