Helgi Hjörvar, forseti Norðurlandaráðs, gagnrýnir harðlega úrskurð dómstóls í Vilníus á miðvikudag, þess efnis að banna göngu samkynhneigðra, Baltic Pride 2010, sem átti samkvæmt áætlun að fara fram í Vilníus þann 8. maí.
Þetta kemur fram á vef Norðurlandaráðs.
„Það er mikilvægt fyrir Norðurlandaráð að framtíðarsamstarf Norðurlanda og Eystrasaltsríkjanna þriggja byggi á grunngildum eins og lýðræði, tjáningarfrelsi og mannréttindum,“ er haft eftir Helga.
Baltic Pride er sameiginlegur viðburður samkynhneigðra, transfólk og tvíkynhneigðra í Litháen, Lettlandi og Eistlandi.
„Að banna gleðigönguna er brot á tjáningar- og félagafrelsi og því verðum við að mótmæla kröftuglega,“ segir Helgi.
Norðurlandaráð hefur átt samstarf við Eystrasaltsríkin þrjú frá árinu 1990, samstarf sem hefur leitt til þess að settar hafa verið á laggir norrænar upplýsingaskrifstofur í höfuðborgum ríkjanna þriggja.
Dómstóll í Vilníus, höfuðborg Litháen, ákvað miðvikudaginn að að banna Baltic Pride 2010 þann 8. maí, af þeirri ástæðu að gangan væri ógn við almannöryggi.
Dómsniðurstöðunni hefur verið áfrýjað.