Segir gagnrýni á lífeyrissjóði ómálefnalega

Frá ársfundi Gildis nýverið.
Frá ársfundi Gildis nýverið. mbl.is/Golli

Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins og formaður stjórnar Gildis lífeyrissjóðs, segir umhugsunarvert er að bera saman stöðu Íslands og Grikklands. Grikkland engist í djúpri kreppu meðal annars vegna ákvarðana skammsýnna og tækifærissinnaðra stjórnmálamanna fyrr á árum sem lögleiddu lífeyriskerfi á kostnað skattgreiðenda sem engin leið er að standa undir, en Grikkir eiga enga lífeyrissjóði.

Segir uppbyggingu lífeyrissjóðann hafa tekist vel

Vilhjálmur birtir grein á vef SA um lífeyrissjóðina og segir uppbygging þeirra eitt af því sem best hefur tekist hjá Íslendingum undanfarin ár og áratugi. 

„Í sjóðunum eru nú samtals rúmlega 1.800 milljarðar króna og fáar þjóðir hafa byggt upp sambærilegan sparnað til þess að standa undir lífeyrisgreiðslum í framtíðinni. Einungis Holland og Sviss eru sambærileg við Ísland en þessi þrjú ríki eiga sparnað í lífeyrissjóðum sem nemur 120-130% af landsframleiðslu en önnur ríki standa þeim langt að baki."

Í dag var greint frá því í Viðskiptablaðinu að þrír stærstu lífeyrissjóðir landsins hafi fært skuldabréf útgefin af fyrirtækjum og fjármálastofnunum niður um 86 milljarða króna frá því í bankahruninu.

Stærsti lífeyrissjóður landsins, Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins (LSR), hefur fært slík bréf niður um tæplega 54%, Lífeyrissjóður Verslunarmanna (LV) um 50,4% og Gildi lífeyrissjóður hefur fært um 66% þeirra á afskriftarreikning

Ómálefnalegt gaspur eða beinlínis rógburður

„Lífeyrissjóðir á vegum aðila vinnumarkaðarins hafa að undanförnu sætt mikilli ágjöf m.a. í fjölmiðlum og ýmis gamalkunnur málflutningur hefur verið viðraður á nýjan leik.  Sér í lagi hafa sjóðir á vegum Samtaka atvinnulífsins og verkalýðshreyfingarinnar orðið fyrir gagnrýni sem alltof oft hefur verið ómálaefnalegt gaspur eða beinlínis rógburður.  Lífeyrissjóðirnir þurfa vissulega að þola gagnrýni eins og allt í samfélaginu.  Því geta þeir ekki beðist undan gagnrýni og aðhaldi.  Það skiptir hins vegar miklu máli að gagnrýnin sé málefnaleg og veiti leiðbeiningar um hvert skuli halda," segir Vilhjálmur í grein sinni.

Nánast útilokað en að tapa á fjárfestingum í kjölfar hrunsins

Hann segir að lífeyrissjóðirnir hafi tapað á fjárfestingum sínum í kjölfar bankahrunsins.  „Annað var nánast útilokað.  Að mati Efnahags- og framfarastofnunar Evrópu (OECD) var ávöxtun lífeyrissjóða neikvæð um 23% árið 2008 í aðildarríkjum þess sem er svipað og á Íslandi. Á Írlandi var neikvæð ávöxtun 40% og 33% í Bandaríkjunum.

Oft gleymist að lífeyrissjóðirnir höfðu hagnast verulega á árunum á undan og þegar upp er staðið er staðan ekki svo afleit.  Uppgangur bankanna, með tilheyrandi eignabólum og fjárfestingarákvörðunum, var byggður á afar veikum grunni sem smám saman hefur komið í ljós. Lífeyrissjóðirnir störfuðu á þessum markaði eins og hverjir aðrir fjárfestar.  Þeir voru þolendur en ekki gerendur.  Aðrir fjárfestar og lánveitendur bæði erlendir og innlendir töpuðu þúsundum milljarða króna á bankahruninu.  Lífeyrissjóðirnir eiga það sameiginlegt með helstu bönkum og fjármálafyrirtækjum heimsins að hafa tapað á íslensku bönkunum sem á tímabili voru taldir meðal bestu fjárfestingarkosta í víðri veröld og mærðir mjög," segir í greininni.

Hér er hægt að lesa grein Vilhjálms í heild

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert