Blekkingum hafi verið beitt

Frá Alþingi.
Frá Alþingi. mbl.is/Heiddi

Sigurður Kári Kristjánsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segir að blekkinginum hafi verið beitt á æðstu stöðum hvað varði loforð um óbreytt launakjör seðlabankastjóra. „Því miður hefur verið sagt ósatt um staðreyndir þess,“ sagði Sigurður Kári á þingi í dag.

„Annað hvort hefur formaður bankráðsins [bankaráðs Seðlabankans] beitt bankaráðið blekkingum þegar tillagan var lögð fram. Hún sjálf verið beitt blekkingum eða hæstvirtur forsætisráðherra hefur ekki sagt þinginu sannleikann um aðkomu foræstisráðuneytisins að þeim loforðum sem gefin voru. Hvoru tveggja er auðvitað grafalvarlegt,“ sagði Sigurður Kári.

„Sé það rétt að hæstvirtur forsætisráðherra hafi ekki komið hreint fram gagnvart þinginu, og ekki sagt sannleikan hér í gær um aðkomu sína eða ráðuneytisins að launhækkunum seðlabankastjóra, þá þarf ráðherrann augljóslega að íhuga sína stöðu,“ sagði hann ennfremur.

Hann segir að Vinstri grænir verði að gera það upp við sig hvort þeir styðji þessi vinnubrögð og beri ábyrgð á þeim. Sigurður Kári spurði einnig hvort Jóhanna njóti enn trausts.

Gunnar Bragi Sveinsson, þingmaður Framsóknarflokksins, tók undir orð Sigurðar Kára.

„Það er nauðsynlegt að forsætisráðherra, forsætisráðuneytið  og efnahags- og viðskiptaráðherra standi þinginu skil á þeim fullyrðingum sem komið hafa fram í fjölmiðlum um að seðlabankastjóra hafi verið lofað hærri launum heldur en hann er á,“ sagði Gunnar Bragi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert