Fín aska yfir öllu

mbl.is/Kristinn

„Það er allt grámyglulegt. Bílarnir voru allir gráir í morgun. Það er eins til tveggja millimetra lag af grárri, mjög fínni ösku yfir öllu,“ segir Reynir Ragnarsson, íbúi á Vík í Mýrdal, í samtali við mbl.is. Mikið öskufall hefur verið í Vík í Mýrdal í gærkvöldi og í nótt.

 „Þegar bílar keyra um göturnar þá er alveg mökkurinn upp af þeim. Það fýkur upp, þessi fína aska, þegar keyrt er um,“ segir Reynir.

Hann segir að öskufallið sé mjög lítið þessa stundina. Það versta virðist vera yfirstaðið.

Reynir segist hafa fyllt tveggja lítra box af ösku, sem hann sópaði af lokinu á heita pottinum sínum. Öskulagið hafi ekki virst vera þykkt, en „þegar maður sópaði því saman þá er það í svona tveggja lítra box.“

Hann kveðst ekki hafa heyrt af fólki kvarta undan óþægindum vegna öskunnar. Þeir sem séu á ferli séu bæði með rykgrímur og hlífðargleraugu. Umhverfisstofnun segir að mælingar á svifryki hafi sýnt talsverða hækkun í gærkvöldi. Sólarhringsmeðaltal gærdagsins hafi verið langt yfir heilsuverndarmörkum.

Aðspurður segir hann hljóðið í bæjarbúum vera ágætt. Það séu hins vegar farnar að heyrast áhyggjuraddir ef þetta haldi áfram í sumar. Þá verði bæði bú- og heyskapur erfiður. Verði þetta ekki meira, og ef það rigni, þá séu horfurnar ekki svo slæmar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert