Þórunn Sveinbjarnadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, segir að formaður bankaráðs Seðlabanka Íslands, skuldi Samfylkinguni skýringu á orðum sínum varðandi loforð um óbreytt launakjör seðlabankastjóra.
„Ég tel að háttvirtur formaður seðlabankans skuldi ráðherranum og okkur í Samfylkingunni, vegna þess að það vorum við sem skipuðum hana í bankaráð seðlabankans, skýringu á orðum sínum og skýringu á því að fara undan í flæmingi þegar spurt er hvað veldur, hver bað. Þetta þarf að skýra,“ sagði Þórunn.
„Mér líkar það ekki að flokksmaður í mínum flokki, Samfylkingunni, dylgi um háttvirtan formann Samfylkingarinnar, forsætisráðherra og annað sem að hefur orðið þar á milli í samskiptum þeirra. Ég veit að hér er djúpt í árina tekið. En málið er líka grafalvarlegt,“ sagði hún.
Þórunn sagði jafnframt að forsætisráðherra væri búinn að svara spurningum þingmanna um aðkomu sína að málinu.
„Hæstvirtur forsætisráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir, svaraði því úr þessum stól hér í gær, að hún hefði ekki gefið nein loforð um sérstakar launahækkanir eða ívilnanir til handa nýjum seðlabankastjóra við ráðningu hans. Hæstvirtur forsætisráðherra svaraði í þrígang. Svar hennar liggur fyrir,“ sagði Þórunn.