Halldór Ásgrímsson, fyrrverandi ráðherra og formaður Framsóknarflokksins, kannast ekki við að sölu bankanna hafi verið handstýrt og að vísbendingar um slíkt, sem fram komi í rannsóknarskýrslu Alþingis, sé hann fyrst að heyra af núna. Þetta kom fram í kvöldfréttum Ríkissjónvarpsins, en rætt verður við Halldór í Kastljósinu.
Í viðtali við RÚV segir Halldór að gera hefði átt meira strax á fyrrihluta árs 2006 þegar hættumerki sáust vegna stærðar bankanna. „Það var settur af stað nefnd eða starfshópur milli aðila til þess að fylgjast með því. Menn sáu hættuna. Það má kannski segja það eftir á að hyggja að það hefðu menn átt að gera meira strax í því sambandi.“
Að sögn Halldórs var hann alla tíð þeirrar skoðunar að mikilvægt væri að fá erlendan banka inn á íslenskan markað. Segir hann slíkt hafa verið reynt með sænskan banka en án árangurs, hugsanlega vegna klaufaskaps íslenskra stjórnvalda. „Ég er ekki í nokkrum vafa með það að það hefði verið miklu betra ef þetta hefði tekist,“ sagði Halldór.
Kaldbakur betri kaupandi ef verð hefði ráðið
„Ef verð hefði eingöngu ráðið þá hefði raunverulega Samson ekki verið réttur kaupandinn heldur Kaldbakur. Þetta sá maður á sínum tíma. Hins vegar var ráðið alþjóðlegt fjármálafyrirtæki til þess að leggja á ráðin um það hvernig þetta skyldi metið. Og þeir höfðu viðmið af alþjóðlegum reglum og eftir því var farið. Þeirra dómur var ráðandi um það hvaða tilboð var tekið,“ sagði Halldór og bætti síðar í viðtalinu við:
„Það var mat þessa aðila sem lá til grundvallar. Það veit ég. Það man ég og það hefur hvergi verið hrakið. Síðan getur verið að menn hafi haft eitthvað á tilfinningunni í þessu, en menn verða fyrst og fremst að horfa til staðreynda í þessu máli.“
Ráðamenn fylgdu settum reglum við einkavæðingu
Aðspurður vísaði Halldór því alfarið á bug að hann eða Davíð Oddsson, fyrrverandi forsætisráðherra, hefðu reynt að hafa áhrif á mat þessa virta alþjóðlega fjármálafyrirtækis.
Spurður hvers vegna Steingrímur Ari Arason, sem sagði sig úr einkavæðingarnefnd á sínum tíma, hafi haldið því fram að sölu bankanna hafi verið handstýrt sagðist Halldór ekki skilja það. Tók hann fram að hann hefði aldrei rætt þetta mál við Steingrím Ara, en að greinilegt mætti vera að Steingrímur Ari hafi átt einhvers konar uppgjör við ráðherra Sjálfstæðisflokksins sem Halldór þekki ekki.
Spurður hvort ekki hafi verið rangt að selja bankana og með þeim hætti sem gert hafi verið vísaði Halldór því á bug. Minnti hann á að ráðamenn hafi starfað eftir þeim reglum sem gilt hafi á sínum tíma og það yrði ávallt að hafa í huga þegar hlutirnir væru metnir eftir á.
Óskandi að eigendur hefði farið betur með vald sitt
Halldór sagði óskandi, að eigendur bankanna hefðu farið betur með það vald sem þeim hafi verið falið og eftirlitið verið betra. Spurður hvort ekki hafi verið óeðlilegt að breyta reglunum um hvernig standa skyldi að einkavæðingu bankanna, eins og fram kemur í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, vísaði Halldór því á bug að reglunum hafi verið breytt.
Spurður hvort ekki hafi verið óheppilegt að kaupendur stóru bankanna tveggja hafi verið nátengdir flokkunum sem mynduðu ríkisstjórn á sínum tíma segist Halldór ekki líta svo á að þeir hafi verið nátengdir flokkunum. „Menn geta náttúrlega ekki útilokað aðila frá því að koma að íslensku viðskiptalífi og íslensku fjármálalífi vegna þess að þeir hafi einhvern tímann tengst ákveðnum flokkum. Það verður náttúrlega að meta menn og fyrirtæki á þeim grundvelli sem þeir starfa á.“
Mistök að slíta Fjármálaeftirlitið frá Seðlabankanum
Aðspurður sagðist Halldór telja að það hafi verið rétt að veita það aukna frjálsræði í viðskiptalífinu sem veitt var þegar hann sat í ríkisstjórn á sínum tíma. Spurður hvort ekki hefði þurft að efla eftirlitskerfi á borð við Fjármálaeftirlitið samhliða einkavæðingunni segir Halldór að hérlendis hafi verið eftirlitskerfi, en að það hafi brugðist eins og víða erlendis.
„Það liggur alveg ljóst fyrir að Fjármálaeftirlitið hefur ekki ráðið við það sem það þurfti að ráða við og menn trúðu að það myndi ráða við,“ sagði Halldór og bætti við: „Eftir á að hyggja held ég að það hafi ekki verið rétt að slíta Fjármálaeftirlitið frá Seðlabankanum.“
Segir 90% hámarks íbúðalán ekki hafa verið mistök
Um gagnrýni á hagstjórn ríkisstjórnar Halldórs á sínum tíma og m.a. þeirri ákvörðun að hækka hámark íbúðalána í 90% sagðist Halldór telja að ákvörðun um slíkar lánveitingar hafi verið rétt. Samtímis gagnrýndi hann framferði bankanna á þessum tíma og tilraunir þeirra til þess að ganga að Íbúðarlánasjóði dauðum með gylliboðum.
Halldór vísaði því einnig á bug að skattalækkanir hafi verið vanhugsaðar og skoða yrði hlutina í samhengi. Erfitt væri að dæma hvern hlut út af fyrir sig. „Þegar ég horfi á ríkisfjármál Íslands á árunum 2005-2007 þá var afgangurinn u.þ.b. 5% að meðaltali af þjóðartekjum sem var mjög sambærilegt við það sem var hér á hinum Norðurlöndunum. Þannig að þetta er sú mynd sem menn verða fyrst og fremst að hafa í huga,“ sagði Halldór og bætti síðar við: „Ég er að segja að ríkisfjármál á Íslandi voru í góðu lagi á þessum tíma og afgangur af ríkisfjármálum með því hæsta sem gerðist í Evrópu. Það er það sem er aðallega ráðandi í þessu efni.“
Biðst afsökunar á syndum sínum í kirkju
Aðspurður segist Halldór ekki telja að hann skuldi íslensku þjóðinni afsökunarbeiðni vegna starfa sinna í aðdraganda bankahrunsins. „Ég hef gert þá hluti sem ég hef staðið að á grundvelli þess sem ég best vissi og á grundvelli minnar samvisku. Og ég get ekki gert betur. Hitt er svo annað mál að menn eru alltaf að biðjast afsökunar á syndum sínum og það geri ég nú í kirkju sem kristinn maður. Því kristin trú og kristin gildi hafa alltaf verið mér mikilvægt veganesti.“