Héraðsdómari hefur fallist á ósk sérstaks saksóknara um að Hreiðar Már Sigurðsson og Magnús Guðmundsson sæti gæsluvarðhaldi vegna rannsóknar málsins. Hreiðar var úrskurðaður í gæsluvarðhald í tólf daga en Magnús í sjö daga.
Lögmaður Magnúsar, Karl Axelsson, sagði eftir uppkvaðningu úrskurðarins að hann væri afar ósáttur við niðurstöðuna.
Að sögn Ólafs Þ. Haukssonar, sérstaks saksóknara, hefur enginn verið handtekinn í tengslum við rannsókn embættisins í dag og vill ekki upplýsa um hvort fleiri verði handteknir á næstunni. Enn sé óvíst um hvort formleg ákæra verður gefin út á hendur Hreiðari og Magnúsi.
Verða í einangrun á Litla-Hrauni
Samkvæmt heimildum mbl.is verða þeir Magnús og Hreiðar Már vistaðir á Litla-Hrauni.
Lögmenn Hreiðars Más og Magnúsar hafa báðir tilkynnt um að úrskurðir héraðsdómara verði kærðar til Hæstaréttar.
Hreiðar Már var boðaður til skýrslutöku í gærmorgun og mætti hann í húsakynni saksóknarans sjálfviljugur. Skýrslutöku lauk um hádegi og var Hreiðari Má þá tilkynnt að hann væri handtekinn.Hann var síðan í skýrslutöku í gærkvöldi og aftur í morgun hjá embætti sérstaks saksóknara.
Ólafur Þ. Haukssonsagði í gær handtöku Hreiðars Más tengjast rannsókn á skjalafalsi, auðgunarbrotum, brotum gegn lögum um verðbréfaviðskipti – meðal annars markaðsmisnotkun – og brotum gegn hlutafélagalögum. Ekki hefði verið ráðist í húsleitir vegna rannsóknarinnar í gær.
Magnús er nú forstjóri Banque Havilland í Lúxemborg, en sá banki var reistur á rústum Kaupþings í Lúxemborg. Bankinn hefur ekki gefið út tilkynningu um hvort Magnús haldi starfinu eftir að hann var úrskurðaður í gæsluvarðhald.