Fréttaskýring: Slóð liggur til Lúxemborgar

Kaupþing í Lúxemborg.
Kaupþing í Lúxemborg. Reuters

Sérstakur saksóknari veitti í gær takmarkaðar upplýsingar um hvaða mál það væru nákvæmlega sem hefðu kallað á handtöku Hreiðars Más Sigurðssonar, fyrrverandi forstjóra Kaupþings, og Magnúsar Guðmundssonar, forstjóra Banque Havilland í Lúxemborg, í gær. Hann staðfesti þó að rannsóknin tengdist kaupum sjeiks Mohameds Bin Khalifa Al-Thani á um 5% hlut í Kaupþingi en í því máli leikur grunur á að um hafi verið að ræða sýndarviðskipti til að halda uppi hlutabréfaverði í bankanum.

Þá hefur komið fram að húsleit á vegum Ólafs Þórs Haukssonar, sérstaks saksóknara, í húsakynnum Banque Havilland, sem tók yfir starfsemi Kaupþings í Lúxemborg, í febrúar sl. var m.a. gerð til að rannsaka viðskipti með hlutabréf í Kaupþingi og með skuldatryggingar á bankann.

Til grundvallar rannsókn sérstaks saksóknara eru kærur frá Fjármálaeftirlitinu og önnur gögn.

Viðskiptavinir gátu bara grætt

Fyrrnefnd viðskipti koma við sögu í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Þar kemur raunar fram að nefndin sendi ríkissaksóknara tilkynningu um að grunur léki á að auðgunarbroti þegar Kaupþing hafði milligöngu um viðskipti með skuldatryggingar á bankann. Bankinn sá til þess að nokkur félög, sem tengdust öll stórum viðskiptavinum, keyptu skuldatryggingu á skuldabréf bankans skömmu fyrir fall hans. Í sumum tilfellum áttu þessir viðskiptavinir stóran hlut í bankanum. „Gátu viðskiptavinir Kaupþings aðeins grætt á viðkomandi viðskiptum á meðan áhættan lá alfarið hjá bankanum,“ segir í skýrslunni. Enginn þeirra græddi þó á þessum viðskiptum enda byggðist gróði á því að Kaupþing yrði enn í rekstri árið 2013.

Í rannsóknarskýrslunni kemur fram að í ársbyrjun 2008 hafi Kaupþing fengið Deutsche Bank sér til ráðgjafar um hvernig mætti hafa áhrif á skuldatryggingaálagið og áttu bæði Hreiðar Már Sigurðsson og Sigurður Einarsson í tölvupóstsamskiptum við starfsmenn Deutsche Bank vegna þessa. Báðir höfðu haldið því fram að skuldatryggingaálagið væri óeðlilega hátt og þeir viljað stuðla að því að það yrði „eðlilegt.“ Sigurður Einarsson, fyrrverandi stjórnarformaður Kaupþings, hefur sagt að Deutsche Bank hafi átt hugmyndina að þessum viðskiptum en því hafa talsmenn Deutsche Bank neitað og sagt að hugmyndin hafi komið frá Kaupþingi.

Í upphafi var ætlunin að þrjú félög tækju þátt í þessu en þau voru í eigu sex einstaklinga sem voru í miklum viðskiptum við Kaupþing. Þessi félög áttu að kaupa lánshæfistengd skuldabréf af Deutsche Bank. Eigendur félaganna voru Ólafur Ólafsson, Skúli Þorvaldsson, Tony Yerolemou, Karen Millen og Kevin Stanford. Fyrrnefndur Al-Thani átti einnig að kaupa skuldabréf en svo virðist sem lán upp á 130 milljónir evra sem var samþykkt til hans hafi aldrei verið greitt út.

Lánin í gegnum Lúxemborg

Alls fór lán upp á 510 milljónir evra til félaga í eigu þessara viðskiptavina og í öllum tilvikum var lánveitandinn Kaupþing í Lúxemborg. Lánin voru síðan flutt til Íslands, ýmist í lok ágúst eða lok september 2008.

Hreiðar Már sagði við skýrslutöku að þessi viðskipti með lánshæfistengd skuldabréf hefðu lækkað álagið um 200-300 punkta. Þá hefur rannsóknarnefnd Alþingis undir höndum samning við eitt þeirra félaga sem tóku þátt í kaupunum sem sýnir að um 10. ágúst 2008 lækkaði skuldatryggingaálag á Kaupþing úr tæpum 1000 punktum í um 700 punkta, þannig að ætla megi að samningarnir hafi haft áhrif á verð á skuldatryggingum enda séu upphæðir þeirra verulegar.

„Takk Meira en nog :-).“

Árangurstengdar greiðslur til starfsmanna Kaupþings banka voru að mestu í bónusgreiðslum. Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis kemur fram að Magnús Guðmundsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings í Lúxemborg, fór ekki varhluta af þeim. Í þriðja bindi er vitnað í tölvubréf milli Sigurðar Einarssonar, fyrrverandi stjórnarformanns bankans, og Magnúsar sem þykir til marks um starfshætti innan bankans.

„Hæ Magnús, Við gengum ekki frá bónus fyrir síðasta ár. Ég legg til 1 millj evrur. Hvað segir þú. Kv, Se.“ Þannig hljóðar tölvubréf Sigurðar Einarssonar frá 9. júlí 2008.

Samdægurs svarar Magnús: „Takk Meira en nog :-).“

Einnig kemur fram að Magnús og Ármann Þorvaldsson, forstjóri Kaupþings í Bretlandi, lögðu til í desember 2006 að stjórnendur bankans gætu losað sig undan persónulegri ábyrgð vegna lána sem þeir tóku til hlutabréfakaupa í bankanum þannig að Kaupþing bæri alla áhættuna. Jafnframt gætu þeir leyst til sín hagnað.

„Sum mál tengjast sama aðilanum“

Fjármálaeftirlitið sendi fyrstu málin sem tengjast starfsemi Kaupþings til sérstaks saksóknara seinni hluta árs 2009. Alls hefur FME sent 33 mál til sérstaks saksóknara. „Sum málin tengjast sama aðilanum,“ sagði Gunnar Þ. Andersen, forstjóri FME, í gær. Það væri saksóknarans að raða málunum saman.

Í fréttatilkynningu frá sérstökum saksóknara kom fram að grundvöllur rannsóknarinnar væri kærur frá FME og önnur gögn.

Gunnar sagðist ekki geta tjáð sig sérstaklega um að hverju málin sem snerta Kauþing lúta. Mál sem FME hefði sent frá sér vörðuðu m.a. markaðsmisnotkun, ranga upplýsingagjöf og innherjaupplýsingar. Hann vildi ekkert segja um hvort kærur sem beinast að Kaupþingi væru alvarlegri en gegn öðrum bönkum. „Það er líka margt óunnið og órannsakað hér. Ef þú spyrð mig eftir tvö ár, þá get ég svarað þessu.“

Gott fyrir skuldara og fyrir bankann

Hreiðar Már Sigurðsson sagði við skýrslutöku hjá rannsóknarnefnd Alþingis að það hefði ekki verið neitt nema hagnaðarvon hjá viðskiptavinum bankans sem tóku þátt í viðskiptum með skuldatryggingar, það er ef bankinn færi í greiðsluþrot þá yrði enginn hagnaður en ef hann væri enn í rekstri í október 2013 þá myndu þessir viðskiptavinir hagnast. Hann sagði einnig: „Ja, þetta var, við töldum að þetta væri þess virði að gera þetta, eins og ég segi, við töldum að við værum að nota fjármuni bankans á ágætan hátt, fá ágætistekjur af þeim fjármunum. Við töldum að það væri mikilvægt að athuga hvort þessi markaður væri raunverulegur eða ekki og við töldum að þetta væri gott fyrir þessa viðskiptavini, sem voru stórir viðskiptavinir og borguðu okkur fullar þóknanir og skulduðu okkur náttúrlega peninga, svo það að staða þeirra mundi batna væri gott fyrir bankann.“
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert