Vilja þinghald í stærra rými

Þingmenn Hreyfingarinnar, Birgitta Jónsdóttir, Margrét Tryggvadóttir og Þór Saari.
Þingmenn Hreyfingarinnar, Birgitta Jónsdóttir, Margrét Tryggvadóttir og Þór Saari. mbl.is

Þingmenn Hreyfingarinnar hafa ritað opið bréf til héraðsdóms Reykjavíkur þar sem þeir skora á dóminn að beita sér fyrir því að þinghaldið yfir níumenningunum svokölluðu fari fram í nægilega stóru rými. Bjóðast þeir til þess að útvega nægilega stórt rými undir þinghaldið og standa straum af kostnaði við leigu þess. 

„Þann 12. maí næstkomandi kl. 13.15 verður mál níumenninganna svokölluðu á dagskrá Héraðsdóms.  Fram hefur komið í fjölmiðlum að til standi af hálfu dómsins að takmarka fjölda áheyrenda við 30 sæti, þar af verði 9 frátekin fyrir hin ákærðu.  Af fenginni reynslu má víst telja að mun fleiri hafi áhuga á að vera viðstaddir réttarhöldin, enda er það réttur almennings. 

Því miður kom til ofbeldis í Héraðsdómi síðast þegar málið var á dagskrá þegar lögregla fjarlægði með valdi sætislausan borgara.  Atburðurinn vakti skelfingu og ótta meðal viðstaddra.  Enginn hefur áhuga á að slíkir atburðir endurtaki sig. 

Því skora undirrituð á Héraðsdóm að beita sér fyrir því að þinghaldið fari fram í stærra rými svo fleiri rúmist við þinghaldið með góðu móti.  Til að sýna hug okkar í verki bjóðumst við til að útvega nægilega stórt rými undir þinghaldið og standa straum af kostnaði við leigu þess. Einnig mætti hugsa sér að koma fyrir tækjabúnaði í dómsalnum svo hægt verði að sýna beint frá því í stærra rými,“ segir í bréfinu sem undirritað er af Margréti Tryggvadóttur, Birgittu Jónsdóttur og  Þór Saari.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert