„Það er of snemmt að segja til um hvort loka þurfi upprekstrar- og afréttarlöndum en útlitið er sannarlega ekki gott," segir Sveinn Runólfsson landgræðslustjóri um stöðuna á afréttarlöndum bænda undir Eyjafjöllum og í Mýrdalnum.
Starfsmenn Landgræðslunnar hafa verið að skoða afrétti á þessum slóðum en Sveinn telur ekki tímabært að kveða upp úr með hvað gert verður í sumar. Yfirleitt reka bændur féð á afrétt undir lok júní eða í byrjun júlímánaðar. Verði staðan á gosinu og öskufall frá því að mestu óbreytt þegar komið er fram í júní gæti þurfti að grípa til annarra ráðstafana.
„Náttúran er ótrúlega dugleg að jafna sig og við vonum það besta, en það horfir vissulega ekki vel. Erfiðast í þessu er óvissan, að vita ekki hvað tekur við, hvenær gosinu lýkur og hverjar afleiðingarnar verða. Það væri ólíkt léttara að takast á við verkefnin ef þau lægju ljós fyrir," segir Sveinn.
Hann segir að ef loka þurfi afréttarlöndum þurfi að styrkja þau beitarlönd, sem bændur hafa kost á, með áburðargjöf til að auka uppskeru þeirra. Flytja þarf féð á þau svæði sem ekki hafa orðið fyrir mikilli röskun af völdum öskunnar, en það fer eftir lögum um sauðfjárveikivarnir hve langt verður hægt að flytja féð. Almennt séð verður reynt að flytja féð sem styðst, að sögn Sveins, ef grípa þarf til slíkra úrræða í sumar.
„Það er gríðarlegur samhugur meðal bænda um að hjálpast að við að leysa verkefnin framundan. Landgræðslan, samtök bænda og aðrar stofnanir leggjast á eitt með að hjálpa þessum bændum," segir Sveinn í samtali við mbl.is