Aukafundur í ríkisstjórn

Stjórnarráð Íslands.
Stjórnarráð Íslands. Jim Smart

Aukafundur í ríkisstjórn er ráðgerður í dag, til þess að ræða frumvarp Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra um breytingar á stjórnarráðinu og fjárlagagerð næstu ára.

Á meðal breytinga sem ráðgerðar eru í frumvarpi Jóhönnu er að láta sjávarútvegsráðuneyti renna inn í nýtt atvinnuvegaráðuneyti og taka frá því sum veigamestu hlutverk þess um leið og færa til umhverfis- og auðlindaráðuneytis eða á nýjan samráðsvettvang ráðuneytanna tveggja, svokallað Nýtingar- og verndarráð sjávarauðlindarinnar, sem mun taka ákvarðanir um nýtingu fiskistofnanna.

Þetta kemur fram í minnisblaði forsætisráðherra sem Morgunblaðið hefur undir höndum. Svo virðist því sem lítið verði eftir af sjávarútvegsráðuneyti Jóns Bjarnasonar, nái breytingarnar fram að ganga.

Ásmundur Einar Daðason, þingmaður VG, sagði í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins í dag að þetta liti þannig út að Samfylkingin vildi losna við eina ráðherrann sem væri harður á móti aðild að Evrópusambandinu. Sem kunnugt er eru sjávarútvegsmál langmikilvægasta málefnið í aðildarviðræðum Íslands við ESB og þykja líklegust til að verða ásteytingarsteinn.

Ekki hefur náðst í Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra í morgun, en Jón Bjarnason er á ferð um öskufallssvæðin á Suðurlandi. Ekki er því alveg víst hvort hann mætir á ríkissstjórnarfundinn eða ekki. Jón vildi aðspurður ekkert tala um þessi mál en sagði mikilvægt að þjóðin styddi vel við bakið á bændum undir Eyjafjöllum og í héruðum þar fyrir austan.

Jón vísaði alfarið á Jóhönnu þegar spurt var út í breytingarnar sem á að gera á ráðuneyti hans og ekki var að heyra að tillögurnar hefðu verið unnar í miklu samráði við sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið sjálft. „Þú verður að spyrja hana. Þetta er hennar mál," sagði Jón. Hann vildi ekkert tjá sig um það hvort honum litist á þá hugmynd að breyta sjávarútvegsráðuneytinu eins og Jóhanna leggur til.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert