Breytingar á stjórnarráðinu mæta andstöðu

Stjórnarráð Íslands.
Stjórnarráð Íslands. mbl.is/Golli

„Áform forsvarsmanna ríkisstjórnarinnar um fyrirhugaðar breytingar á stjórnarráði Íslands hafa mætt almennri andstöðu um land allt. Fjölmörg hagsmunasamtök, sveitarstjórnir og flokksfélög hafa öll ályktað gegn þessum breytingum.“ Þetta kemur fram í tilkynningu sem Gísli Árnason, formaður svæðisfélags Vinstri grænna í Skagafirði, hefur sent fjölmiðlum.

Þar kemur fram að væntanlegur sparnaður vegna breytinganna geti á einu ári numið um 160 milljónum. „Sé gert ráð fyrir að ekki sé hér um ofmetin áhrif vegna fjárhagslegrar samlegðar þá eru þetta um 0,03% af útgjöldum ríkisins eins og þau birtast með fjárlögum ársins 2010 með öllum vaxtagjöldum og væntum halla.

Ekki verður séð að sá vænti ávinningur, sem eftir reynslu og rannsóknum að dæma er alls ekki í hendi, sé réttlæting á móti þeirri áhættu sem felst í slíkri breytingu þegar reynsla af öðrum slíkum er skoðuð,“ segir m.a. í tilkynningu Gísla.

Að hans sögn er víðtæk andstaða hjá öllum hagsmunasamtökum gegn niðurlagningu sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis auk þess sem ekki virðist að finna pólitískan stuðning meðal annars stjórnarflokksins ef marka megi ályktun flokksráðsfundar Vinstrihreyfingarinnar Græns framboðs 15. janúar s.l.
 
Í þeirri ályktun segir m.a. að flokksráðsfundur VG skori á stjórn og þingflokk VG að áform um endurskipulagningu stjórnarráðsins verði enduskoðuð í ljósi breyttra aðstæðna og yfirfarin áður en frekari skref verða tekin.

„Á næstu árum munu grunnatvinnuvegir þjóðarinnar svo sem landbúnaður og sjávarútvegur skipta verulegu máli við endurmótun íslensks atvinnulífs, eftir sviðna jörð frjálshyggjunnar og græðgisvæðingu undanfarinna ára.

Varhugavert er að draga úr vægi ofangreindra atvinnugreina innan stjórnsýslunnar á sama tíma og þjóðin þarf öðru fremur að treysta á þessa málaflokka í þeim hremmingum sem nú ganga yfir,“ segir í ályktuninni.


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert