Stjórnin ræðir málin áfram

Steingrímur J. Sigfússon.
Steingrímur J. Sigfússon. Kristinn Ingvarsson

Fundi ríkisstjórnarinnar, sem hófst kl. 18, var að ljúka í Ráðherrabústaðnum. Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra sagði við fjölmiðla að fundi loknum að engin niðurstaða hefði fengist í umræðu um boðað frumvarp forsætisráðherra um breytingar í Stjórnarráðinu og í stjórnkerfinu. Ríkisfjármál voru einnig rædd á fundinum.

Sagði Steingrímur að litið væri á stjórnkerfisbreytingar sem hluta af aðgerðum í ríkisfjármálum. Grípa þyrfti til aðgerða á næsta ári um tugi milljarða króna og spurður hvort það yrði gert með niðurskurði í ríkisfjármálum svaraði Steingrímur því til að ekki yrði farið út í mikla nýja tekjuöflun, heldur yrði aðgerðum náð fram að mestu á gjaldahlið ríkissjóðs.

Spurður hvort málinu hefði miðað áfram á fundinum í kvöld sagði Steingrímur svo hafa verið, en vildi ekki segja til um hve langt væri í að niðurstaða fengist með frumvarp forsætisráðherra.

Jón Bjarnason, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, vildi ekkert tjá sig um efni fundarins við fjölmiðla, þegar eftir því var leitað. Jóhanna Sigurðardóttir gaf heldur ekki færi á sér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert