Þjóðfundinum um fátækt og félagslega einangrun er lokið en um 80 manns tóku þátt í honum. Fjölmargar tillögur komu fram um hvernig ætti að berjast gegn fátækt og hvaða úrræði ættu að vera fyrir þá sem lifa undir fátæktarmörkum.
Var þjóðfundurinn haldinn í tilefni af Evrópuárinu, en helsta markmið þess er að raddir þeirra einstaklinga sem búa við fátækt og félagslega einangrun fái að heyrast.
„Þess vegna ákváðum við að halda fund með þjóðfundarsniði þar sem fólk úr hinum ýmsu hópum samfélagsins sest niður og ræðir á jafnræðisgrundvelli um fátækt, óörugga lífsafkomu og félagslega einangrun og hvaða leiðir séu færar til þess að vinna gegn slíkri stöðu," segir Árni Páll Árnason, félags- og tryggingamálaráðherra, í tilkynningu frá ráðuneytinu, sem stóð fyrir fundinum. Mikilvægt sé að koma á öflugri samræðum og skoðanaskiptum í samfélaginu um þessi mál og tryggja að allar raddir heyrist. „Það er von okkar að fundurinn skili raunhæfum hugmyndum og ábendingum um leiðir sem geti reynst gagnlegar í baráttunni gegn fátækt og félagslegri einangrun á Íslandi."
Nokkur atriði sem komu fram á fundinum
• Jafnari launakjör með hvetjandi kerfi og auknum vinnumarkaðsúrræðum.
• Byrja nógu snemma að innræta grunngildi samfélagsins um virðingu fyrir sjálfum sér og öðrum og umhyggju fyrir samfélaginu.
• Gefa fólki svigrúm til sjálfsbjargar eftir að það hefur þurft að leita sér aðstoðar.
• Að jafna lífskjör í samfélaginu með því að allir hafi störf við hæfi, húsnæði og möguleika til að taka þátt í samfélaginu og mótun þess.
• Komið verði á fót skiptivinnumarkaði og talsmanni bótaþega.
• Bætt lífskjör til hækkunar lægstu launa skapast með jöfnum tækifærum til atvinnu og menntunar fyrir alla.
• Efla og standa vörð um velferðarþjónustu og auka félagslega ráðgjöf.
• Aukin menntun og endurhæfing, efling í hjálparstarfi og á sviði atvinnu- og launamála getur dregið úr fátækt og félagslegri einangrun.
• Sveigjanleg velferðarþjónusta með skýr framfærsluviðmið öll veitt á einum stað.
• Öllum þegnum sé tryggð viðurkennd lágmarksframfærsla með atvinnu, mannsæmandi launum og/eða samfélagslegum greiðslum.
• Sérstök áhersla sé lögð á barnafjölskyldur og virkni allra í samfélaginu.
• Velferð skapar verðmæti, félagsleg og efnahagsleg.
• Samfélagið þarfnast þátttöku allra og ber á móti að veita öllum úrræði við hæfi.
• Raunhæf, viðurkennd framfærsluviðmið sem öll kerfi fylgja er grundvöllur aðstoðar og fjárhagsviðmiða.
• Atvinna, menntun, endurmenntun og tækifæri er krafa og grundvöllur lífsgæða og félagslegrar virkni.
• Efla þarf foreldrafræðslu og stuðning við lítið menntað fólk.
• Berjast gegn félagslegri einangrun fátækra með:
– Góðum og gjaldfrjálsum almenningssamgöngum.
– Gjalfrjálsum menningarviðburðum fyrir börn og fullorðna
– Samkomustöðum þar sem fólk getur hist, óháð fjárhagsstöðu (melting point for people)