„Kjörnefndin kallaði fjölda kvenna á sinn fund til að spyrja hvort þær vildu koma í aðalstjórn, varastjórn eða önnur laus embætti. Einnig var mikið hringt út," segir Guðrún Helga Sigurðardóttir blaðamaður í yfirlýsingu sem hún hefur sent frá sér í tilefni umfjöllunar um aðalfund Blaðamannafélags Íslands, BÍ, en hún átti þar sæti í kjörnefnd. Ein kona fór í aðalstjórn en Félag fjölmiðlakvenna er ósátt við hlut kvenna í stjórn og vill boða til aukaaðalfundar.
„Kjörnefndin fékk drög að uppstillingu stjórnar í hendur um það leyti sem fundurinn hófst og fljótlega lýsti ég yfir óánægju minni með hlutfall kvenna í stjórn félagsins. Samkvæmt þessum drögum voru konur að fara úr stjórn og engar að koma nýjar inn í staðinn, aðeins karlar. Ég sagði strax að þetta gengi ekki og gekk óánægjan svo langt að ég lýsti yfir að ég myndi segja mig úr kjörnefndinni nema hlutfallið yrði jafnara. Félagar mínir í kjörnefndinni sýndu því skilning og því var gengið í það að fjölga konum. Þegar tveir aðalmenn gengu svo óvænt úr stjórn var ljóst að rými hafði skapast fyrir nýja kandidata," segir Guðrún Helga í yfirlýsingunni en á þessum tímapunkti aðalfundar BÍ kallaði kjörnefndin til sín fjölda kvenna.
Niðurstaðan var sú að Rakel Ósk Sigurðardóttir, ljósmyndari á Birtingi, kom ný inn sem varamaður í samningaráð. Í sjö manna aðalstjórn er ein kona, Erla Hlynsdóttir, og í þriggja manna varastjórn komu tvær konur nýjar inn, Sigrún María Kristinsdóttir og Lóa Pind Aldísardóttir. Guðrún Helga segir þetta gott, allt séu þetta sterkar konur en betur megi ef duga skal.
„Aðalfundur Félags fjölmiðlakvenna vill sjá sem jafnast hlutfall karla og kvenna í forystu fyrir Blaðamannafélagið. Það kom skýrt fram á aðalfundi félagsins á föstudaginn. Ég tel að við blaðamenn þurfum alltaf að vinna meðvitað að því að jafna kynjahlutfallið, hvort sem það er í vali á viðmælendum eða embætti á vegum heildarsamtaka okkar. Þannig sinna blaðamenn best aðhaldshlutverki sínu. Kjörnefnd BÍ hlaut stuðning til þess að halda áfram störfum sínum fyrir aðalfund félagsins að ári og þá gefst kostur á að jafna hlutfallið enn frekar í þágu stéttarinnar allrar," segir Guðrún Helga.
Hún segir öllu máli skipta að vinna í einingu að því að bæta hag og efla fagmennsku innan blaðamannastéttarinnar og miklu skipti að spila skynsamlega úr spilunum.
„Ég vil óska formanni Blaðamannafélagsins innilega til hamingju með formannskjörið. Ég veit að hann hefur alltaf sinnt félaginu af kostgæfni og ber hag blaðamannastéttarinnar fyrir brjósti. Gangi formanni og stjórn sem allra best í störfum sínum," segir hún í lok yfirlýsingarinnar sem send var fjölmiðlum í kvöld.