Aukafundur er hafinn hjá ríkisstjórninni í ráðherrabústaðnum við Tjarnargötuna þar sem m.a. verður rætt um boðað frumvarp forsætisráðherra um breytingar á Stjórnarráðinu, fækkun ráðuneyta og breytta verkaskiptingu. Einnig verða ríkisfjármálin rædd og boðaður niðurskurður.
Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, sagði við komuna á fundinn að ólíklegt væri að tillögurnar yrðu afgreiddar á fundinum í kvöld en tók fram að vonandi tækist það á næstu dögum. Sagði hann um vinnufund ríkisstjórnarinnar að ræða þar sem farið yfir tillögur um breytingar að veraskiptingu.
Katrín Júlíusdóttir, iðnaðarráðherra, sagði að búið væri að fara yfir tillögurnar í ráðuneytunum að undanförnu. Tók hún fram að fulltrúar iðnaðarráðuneytisins og umhverfisráðuneytisins hefðu farið sameiginlega yfir málið og þar væri full samstaða um tillögurnar.
Jón Bjarnason, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, kom síðastur ráðherra á fundinn og vildi ekkert ræða við blaðamenn um fyrirliggjandi fundarefni. Tók ann fram að hann hefði eytt deginum fyrir austan fjall þar sem hann ræddi við bændur á gossvæðinu.
Haft var eftir Steingrími J. Sigfússyni fjármálaráðherra í fréttum RÚV að hann vildi draga úr valdi ráðherra við ráðningar embættismanna, eins og við skipun dómara. Betra sé að fagleg valnefnd sjái um slíkar ráðningar. Sagði Steingrímur skýrslu starfshóps forsætisráðherra um stjórnsýsluna hafa verið mjög gagnlega.