Öskuskýið frá Eyjafjallajökli mun líklega trufla eða stoppa flugumferð á Bretlandseyjum og í stórum hluta Suður-Evrópu í dag, samkvæmt spá London Volcanic Ash Advisory Center.
Allar líkur eru á því að Keflavíkurflugvöllur og Reykjavíkurflugvöllur verði lokaðir í allan dag, eins og spár um öskudreifingu standa nú. Akureyri er aftur orðin miðstöð millilandaflugs og þar hefur verið talsverð seinkun á flugi í morgun.
Ástæðan fyrir töfinni er ekki síst sú að seinkun er á flugvöllum víða um Evrópu, auk þess sem ekki er einfalt að taka svona mikla umferð í gegnum flugvöllinn á Akureyri og nokkuð púsluspil er að koma öllu fyrir, samkvæmt upplýsingum frá Isavia.
Meðal annars er gert ráð fyrir því að einhverjar flugvélar sem ekki eiga að fara strax frá landinu verði ferjaðar til Egilsstaða svo þær taki ekki plássið á Akureyri á meðan þær eru í stoppi.