Rannsókn embættis sérstaks saksóknara, á efnahagsbrotum innan Kaupþings fyrir bankahrun gengur vel, að sögn Ólafs Þórs Haukssonar. Yfirheyrslur hafa haldið áfram í morgun og er svipaður fjöldi starfsmanna embættisins að störfum við málið og verið hefur. Ólafur reiknar með að talsverður framgangur verði í rannsókninn í dag.
Í gær unnu fimmtán manns að rannsókninni. „Það er áfram unnið að rannsókninni og eftir því sem fleiri leggja hönd á plóg gengur hún betur," segir Ólafur Þór. Aðspurður neitar hann því að allir starfskraftar embættisins séu að fara í þessa einu rannsókn. „Nei, við erum með fleiri mál í gangi," segir hann.
Eins og fram hefur komið sitja Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings og Magnús Guðmundsson, fyrrverandi forstjóri bankans í Lúxemborg og arftaka hans, Banque Havilland, í gæsluvarðhaldi vegna málsins. Þeir eru grunaðir um skjalafals, auðgunarbrot og markaðsmisnotkun.
Ekki hafa verið framkvæmdar frekari handtökur eða húsleitir.