Brotist inn í tólf sumarbústaði

Lögreglan á Selfossi hefur haft í nægu að snúast undanfarið.
Lögreglan á Selfossi hefur haft í nægu að snúast undanfarið.

Tólf tilkynningar bárust í síðustu viku til lögreglunnar á Selfossi um innbrot í sumarbústaði. Sjö innbrotanna voru í Grafningi og önnur í Grímsnesi og í Biskupstungum. Fyrst og fremst voru það flatskjáir og hljómflutningstæki sem þjófarnir höfðu á brott.

Mismiklar skemmdir voru á húsunum eftir þjófana en í flestum tilvikum spenna þeir upp glugga eða hurðir. Í sumum tilvikum er gengið beint í að fjarlægja tækin en í öðrum er rótað í skápum, samkvæmt dagbók lögreglu.

Maður var fluttur á slysadeild Landspítala síðastliðið föstudagskvöld eftir að hann féll aftur fyrir sig við hnefahögg sem maður veitti honum í Þorlákshöfn. Maðurinn rotaðist við fallið en hann mun ekki hafa hlotið alvarlega áverka. Málið er í rannsókn en ekki er vitað hvað manninum gekk til sem veitti höggið, samkvæmt dagbók lögreglunnar á Selfossi.

Væntanlega farið fram á nálgunarbann

Snemma á laugardagsmorgun var tilkynnt um mann sem reynt hafði að brjótast inn til fyrrverandi eiginkonu sinnar á Selfossi. Lögreglumenn fundu manninn skammt frá heimili konunnar. Hann reyndist mjög ölvaður og bar á sér flökunarhníf sem hann kastaði frá sér um leið og hann varð lögreglunnar var.

Maðurinn hafði um nóttina ítrekað hringt í konuna og valdið henni ónæði. Skemmdir voru á hurða- og gluggakarmi eftir manninn sem reynt hafði að komast inn á heimili konunnar. Hann var handtekinn og færður í fangageymslu og síðan yfirheyrður. Líkur eru á að lögreglustjóri fari fram á að manninum verði gert að sæta nálgunarbanni gagnvart konunni.

Lögreglumenn lögðu hald á bruggtæki sem fundust í húsleit í Hveragerði í síðustu viku. Ekkert áfengi fannst en talið er að tækin hafi verið nýlega komin í húsið. Ekki liggur fyrir hvort tækin hafi átt að vera þarna til geymslu eða hvort til hafi staðið að hefja bruggun.

Brenndist í andliti og á hendi

Kona brenndist fyrsta og annars stigs bruna í andliti og á hendi þegar hún var að bæta etanóli á arinn á veitingastaðnum Riverside í Hótel Selfoss. Eldur blossaði upp í arninum þegar hún var að bæta etanólinu á eldsneytishólf í arninum og komst eldurinn í föt konunnar.

Henni tókst að slökkva eldinn með ísmolum sem voru til staðar í eldhúsi staðarins. Læknir var á staðnum og veitti konunni fyrstu hjálp. Konan var flutti með sjúkrabifreið á heilsugæslustöðina á Selfossi þar sem gert var að sárum hennar. Eldurinn setti af stað úðakerfi í rýminu og af því hlaust vatnstjón, að því er segir í dagbók lögreglu.

Ökumaður mótorkrosshjóls slasaðist er hann féll af hjólinu á malarslóða við Litlu kaffistofuna í gærdag. Hann slasaðist lítils háttar í andliti og á rófubeini. Ástæðan fyrir óhappinu mun hafa verið sú að ökumaðurinn náði ekki beygju sem var á slóðanum og fór því útaf veginum og féll niður um tíu metra háum kanti.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert