Tuttugu vélar með um 4.000 farþega innanborðs hafa flogið frá Akureyrarflugvelli síðustu þrjá sólarhringa. Sigurður Hermannsson, starfsmaður ÍSAVÍA ohf. (ný sameinað félag Flugstoða og Keflavíkurflugvallar) segja alla umgjörð millilandaflugs um Akureyrarflugvöll hafa gengið ótrúlega vel. Sérstaklega vegna þolinmæði og skilnings flugfarþega. Þá segir hann hjálp Rauða Krossins og björgunarsveitarinnar Súlur, hafa skipt miklu máli. Sigurður segir starfsmenn flugvallarins vera orðna ansi þreytta, en þeir muni halda áfram að halda uppi millilandaflugi, svo lengi sem þess sé þörf.
Meðal farþega í síðustu millilandaflugvélinni, a.m.k. í bili eru brúðhjónin, Anný Jakobína Jakobsdóttir og Trausti Már Valgeirsson. Þau segjast taka þessu öllu með jafnaðargeði, enda séu þau í góðum félagsskap. Þau viðurkenna þó fúslega að það hafi verið ansi svekkjandi að heyra að búið væri að opna Keflavíkurflugvöll, þegar þau voru stödd í Skagafirði. Hins vegar telja þau brúðkaupsferðina einfaldlega eiga eftir að vera enn eftirminnilegri fyrir vikið.