Ólafur Hauksson, sérstakur saksóknari efnahagshrunsins, heldur í dag til Bretlandseyja þar sem hann mun freista þess að ná tali af
Sigurði Einarssyni, fyrrverandi stjórnarformanni Kaupþings. Sigurður er
búsettur í London og hefur ekki svarað kalli sérstaks saksóknara um að
koma til landsins í yfirheyrslu. Þetta kemur fram á vef DV.
Ólafur staðfestir í samtali við DV að hann sé á leiðinni til Bretlands en vill ekki greina nánar frá erindinu þangað. „Já, en ég get ekki sagt hvert,“ segir Ólafur aðspurður. Hann segist eiga flug til Glasgow í dag, mánudag. Vegna gossins hefur flug frá Íslandi til London farið í gegnum Glasgow. „Nei, ég er ekki að fara í frí heldur vegna vinnunnar,“ segir Ólafur.