Enn kemur kvika úr möttlinum

Gosmökkurinn yfir Eyjafjallajökli.
Gosmökkurinn yfir Eyjafjallajökli. mbl.is/Júlíus Sigurjónsson

Jarðskjálftahrinan undir Eyjafjallajökli í morgun bendir til þess að enn sé kvika að koma úr möttlinum. Gosvirknin hefur gengið í bylgjum og gaf heldur í í kjölfar
hrinunnar, en þó ekkert að ráði. Ekkert bendir til þess að gosinu sé að
ljúka. Þetta er niðurstaðan í minnisblaði Veðurstofu Íslands og Jarðvísindastofnunar Háskóla Íslands sem birt var skömmu fyrir fimm í dag.

Matið byggir á jarðskjálftamælum, vatnsrennsli í Markarfljóti, GPS mælum, og MODIS gervihnattamyndum.

Þar kemur fram að gosmökkurinn nái að jafnaði 5 km hæð yfir sjávarmáli samkvæmt veðurratsjá, en fer þó stundum upp í 6 km. Litur þess er ljós grár og liggur suðaustur. Vindáttir eru þó breytilegri við yfirborð og hægur vindur.

Tilkynnt hefur verið um öskufall á Drangshlíðar og Skarðshlíðarbæjum í Eystra Rangárþingi. Að sögn ábúenda hefur aska fallið nánast allan síðasta
sólarhring. Askan er frekar grófkorna, u.þ.b. 2-3 mm að þeirra mati.

Engar eldingar hafa mælst seinustu vikuna.Rennsli við Gígjökul hefur verið lítið undanfarna daga. Grunnrennsli Markarfljóts er ráðandi sem sést á því að reglulegar dægursveiflur eru í rennsli við Markarfljótsbrú en ekki tilviljanakenndar sveiflur vegna rennslis frá Gígjökli eins var dagana þar á undan.

Ekkert var flogið í dag yfir gosstað, en gosvirkni virðist svipuð og í gær. Klepragígur hleðst upp í ískatlinum. Hraunrennsli er í lágmarki. Sprengivirkni jókst um hádegisbilið með aukinni gjóskuframleiðslu og hækkandi gosmekki, en var að mestu gengið niður um 15.

Óróinn er stöðugur og hefur nú verið svipaður síðustu sólarhringa, svipaður á
öllum tíðniböndum á næstu stöðvum. Alls mældust á fjórða tug skjálfta undir Eyjafjallajökli í morgun, flestir á um 18 – 20 km dýpi. Órói á jarðskjálftamælum er nú nokkuð minni en fyrir viku síðan og því mælast minni skjálftar nú en þá. Þetta skýrir að einhverju leiti fjölda skjálftanna í morgun.



mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert