Fréttastofa Stöðvar 2 dregur frétt til baka

Fréttastofa Stöðvar 2 og Vísis hefur ákveðið að draga til baka fréttaflutning af meintum fjármagnsflutningum nafngreindra manna til skattaskjóla sem birt var í júlí 2009. Þetta kom fram í kvöldfréttum Stöðvar 2. 

Í lok júlí 2009 birti Stöð 2 og vefmiðillinn visir.is frétt þess efnis að fjórir nafngreindir menn, Björgólfur Thor Björgólfsson, Björgólfur Guðmundsson, Karl Wernerson og Magnús Þorsteinsson, hefðu látið flytja milljarða króna úr Straumi-Burðarási fjárfestingarbanka í erlend skattaskjól á sama tíma og tilkynnt var um þjóðnýtingu Glitnis banka. Þá var eignarhaldsfélagið Samson sagt koma við sögu þessara meintu fjármagnsflutninga.

Í leiðréttingu fréttastofu Stöðvar 2 kemur fram að fréttaflutninginn hafi byggt á frásögn heimildarmanns, en fréttastofan hafði ekki nein gögn undir höndum sem studdu frásögn heimildamannsins.

„Fréttastofan telur við nánari skoðun að heimildir fyrir fréttinni hafi verið ófullnægjandi og rangar og var frétt fréttastofu Stöðvar 2 af málinu því röng.
Vinnulag fréttastofu var ekki í samræmi við siðareglur 365 miðla um mat heimilda og rétt aðila umfjöllunarefnis til að koma sínum sjónarmiðum á framfæri. Þeir starfshættir hafa verið endurskoðaðir til að koma í veg fyrir að slíkt endurtaki sig,“ sagði m.a. í leiðréttingu fréttastofunnar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert